Vesturbyggð hefur afgreitt fjárhagsáætlun fyrir næsta ár fyrir sveitarfélagið. Heildartekjur eru áætlaðar verða 3.274 m.kr. Fasteignaskattur og útsvar eru áætlaðar 1.429 m.kr. og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 926 m.kr. Aðrar tekjur verða 918 m.kr.
Stærsti útgjaldaliðurinn í rekstrinum eru laun og tengd gjöld 1.574 m.kr. Afskriftir eru 145 m..kr. og fjármagnskostnaður 209 m.kr. Afgangur frá rekstri er áætlaður verða 230 m.kr.
Almenn hækkun á gjaldskrám Vesturbyggðar er 4,5 % en gjaldskrár sem snúa að börnum og eldri
borgurum og öryrkjum hækka um 2,8% á árinu
Tekin lán á næsta ári verða 435 m.kr. og greitt af lánum verður 263 m.kr.
Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall A- og B-hluta samstæðu Vesturbyggðar verði 124,2% í árslok 2024 en var í árslok 2023 120,5%. Skuldahlutfall hefur farið hækkandi vegna mikillar uppbyggingar í innviðum sveitarfélaganna.
Skuldaviðmið A- og B-hluta samstæðu Vesturbyggðar er áætlað að verði 95,3% í árslok 2024 en var skv. samanteknum ársreikningum 2023, 90,5%.
396 m.kr. í nýjan skóla á Bíldudal
Til framkvæmda verður varið 676 m.kr.
Stærsta fjárfesting sveitarfélagsins á árinu 2025 er bygging nýs leik- og grunnskóla á Bíldudal. Leik- og grunnskóli verður í sama húsnæði með þeirri stoðþjónustu sem þörf er á. Gert er ráð fyrir 20% fjölgun leik- og grunnskólabarna í húsnæðinu og að skólinn verði tilbúinn til notkunar haustið 2025.
Undirbúningur við bygginguna er í fullum gangi og er hún að hluta til í framleiðslu og munu fullbúnar
einingar rísa fyrri hluta árs 2025. Fjárfesting sem þessi tekur mikið til sín og er gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna muni nema 396 milljónum á árinu. Á móti kemur greiðsla sem sveitarfélagið fékk vegna eldri byggingar og verður hún nýtt á móti framlagi sveitarfélagsins. Á árinu verður jafnframt farið í hönnun á skólalóð og er gert ráð fyrir að leitað verði til nemenda með hugmyndir að leiktækjum á lóðinni og hönnun svo unnin út frá þeim hugmyndum. Framkvæmdum við lóðina verður skipt upp í nokkra áfanga.