Vestfirðir: fjölgaði um 0,9% síðasta árið

Íbúar á Vestfjörðum voru 7.544 þann 1. desember sl. og hafði fjölgað um 67 síðustu 12 mánuði. Fjölguninni nemur 0,9%. Landsmönnum fjölgaði um 1,8% á sama tíma. Fjölgunin á Vestfjörðum varð því réttur helmingur þess sem varð á landinu öllu.

Fjölgun varð mest á Suðurlandi eða 3,8%. Þá 2,4% fjölgun á Vesturlandi og 2,3% fjölgun á höfuðborgarsvæðinu.

Á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi varð fjölgun en þó undir landsmeðaltali í hverjum landshluta.

Á Suðurnesjum varð bein fækkun um 2,7%.

Í Kaldrananeshreppi og Árneshreppi varð töluverð fjölgun umfram landsmeðaltal. Í Kaldrananeshreppi fjölgaði um 10,3% og um 9,4% í Árneshreppi. Það eru þó fáir einstaklingar á bak við fjölgunina, aðeins 11 manns í Kaldrananeshreppi og fimm í Árneshreppi. Fjölgun varð umfram landsmeðaltal í Reykhólahreppi 2,8%.

Að öðru leyti varð mest fjölgun í Ísafjarðarbæ um 62 manns eða 1,6% og um 15 manns í Bolungavík eða 1,5%.

Fækkun varð í þremur sveitarfélögum á Vestfjörðum síðasta árið. Í nýja sameinaða sveitarfélaginu Vesturbyggð fækkaði um 16 manns, í Súðavík fækkaði um 9 manns og í Strandabyggð varð fækkun um 8 manns.

DEILA