Verkvest: félagsleg undirboð Virðingar og Sveit

Trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga hvetur félagsfólk, almenning og atvinnurekendur til samstöðu gegn félagslegum undirboðum SVEIT og Virðingar segir í yfirlýsingu sem Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefur sent frá sér. Þar segir einnig að nýja stéttarfélagið Virðing sé gervistéttarfélag og kjarasamningur þess feli í sér verulegar skerðingar á launum og réttindum starfsfólks.

Yfirlýsingin i heild:

„Verkalýðsfélögin í landinu hafa háð yfir 100 ára baráttu fyrir bættum launakjörum sem og mikilvægum réttindum á vinnumarkaði. Kjörum sem okkur öllum þykja sjálfsögð og stundum sjálfgefin.

Nýlega var stofnað gervi „stéttarfélag” sem er því miður ekkert annað en GULT félag, stofnað af atvinnurekendum sjálfum, eigendum og stjórnendum á vinnustöðum sem eru einmitt þeir sem hagnast helst á lakari kjörum launafólks. Gulu „félögin” hafa þann eina tilgang að brjóta niður umsamin lágmarks launakjör og lágmarksréttindi. Því miður eru starfandi fleiri slík gul félög á íslenskum vinnumarkaði. Nýjasta gula félagið heitir „Virðing“ sem hefur gert samning við SVEIT (Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði) um gervi „kjarasamning” vegna starfa á veitinga- og gististöðum.

Þessi gervi „kjarasamningur” er bein aðför að tekjulægsta hópnum á vinnumarkaði, starfsfólki á veitingastöðum og gistihúsum. Þau kjör sem Virðing býður félagsfólki sínu eru ekki í samræmi við þau lágmarkskjör og réttindi sem eru í gildi fyrir starfsfólk í gistihúsa- og veitingageiranum. Þvert á móti felur gervi „kjarasamningur” Virðingar við SVEIT í sér verulegar skerðingar á launum og réttindum starfsfólks og má sem dæmi nefna:

  • Dagvinna er greidd á virkum dögum til kl. 20:00 ( Frá kl. 08:00 til kl. 17:00 hjá SGS)
  • Vaktaálag á virkum kvöldum eftir kl. 20 er 31% (33% álag eftir kl. 17:00 hjá SGS)
  • Dagvinna á laugardögum til kl. 16:00 (45% álag allan daginn hjá SGS)
  • 31% álag á sunnudögum (45% álag hjá SGS)
  • 45% vaktaálag fyrir næturvinnu um helgar frá 24:00-05:00 (55% álag hjá SGS til 08:00)
  • Ekkert stórhátíðarkaup (90% álag á stórhátíðardögum hjá SGS)
  • Kjör ungmenna á aldrinum 18-21 árs eru skert
  • Réttur barnshafandi kvenna er skertur.
  • Lakari veikindaréttur starfsfólks og vegna barna
  • Lakari orlofsréttur
  • Lakari uppsagnarfrestur (heimilt að gera breytingar á starfshlutfalli með viku fyrirvara en uppsagnarfrestur gildir hjá SGS)
  • Ekkert um fræðslu- eða sjúkrasjóði og greiðslur í þá
  • Ýmis félagsleg réttindi eru skert sem og réttindi og möguleikar trúnaðarmanna á að gegna starfi sínu.

Framganga Virðingar og SVEIT er að mati Trúnaðarráðs Verk Vest ein svívirðilegasta atlaga sem gerð hefur verið að réttindum launafólks og gríðarlegt högg fyrir kjarabaráttu þeirra lægst launuðu. Trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga biður félagsfólk sem vinnur á veitinga- og gistihúsum að láta félagið vita ef því er boðin vinna samkvæmt slíkum gervi „kjarasamningum”.

Trúnaðarráð Verk Vest hvetur félagsfólk og almenning til að standa saman með öðrum stéttarfélögum til að stöðva niðurbrot réttinda og launakjara á félagssvæðinu. Sömuleiðis hvetur Trúnaðarráð atvinnurekendur á svæðinu til að virða gildandi kjarasamning félagsins fyrir starfsfólk á veitinga- og gistihúsum.“

DEILA