Tilraunaeldi á loðnu

Vísindamenn á tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar hafa í fyrsta sinn ræktað loðnu frá klaki til fullorðinsaldurs í eldisumhverfi. Loðnuhrogn voru frjóvguð um borð í uppsjávarskipinu Víkingur AK 100 og flutt þaðan í tilraunaeldisstöðina á Stað við Grindavík, þar sem lirfurnar klöktust út 30 dögum síðar.

Frá þessu er sagt á vef Hafrannsóknastofnunar.

Ræktun loðnulirfanna byggðist á eldisaðferðum sem hafa verið þróaðar í eldisstöðinni til eldis á þorski með góðum árangri.

Við stöðugt hitastig (7°C) var vöxtur loðnunnar jafn og ör, og fyrstu loðnurnar náðu kynþroska aðeins ári frá klaki. Á öðru ári dró úr vexti, og loðnan náði hámarkslengd, 18,4 cm, á aðeins 2,6 árum, sem er umtalsvert skemmri tími en hjá villtri íslenskri loðnu.

Þessi rannsókn veitir mikilvæga innsýn í vaxtarfræði og líffræði þessarar mikilvægu tegundar og leggur grunn að frekari loðnurannsóknum í tilraunaumhverfi.

Þrátt fyrir að loðnan sé afar viðkvæm fyrir meðhöndlun gerir stuttur líftími hennar hana að efnilegu tilraunadýri.

DEILA