Húsfyllir var í Félagsheimili Þingeyrar í gærkvöldi á tónleikum karlakórsins Ernis og Kvennakórs Ísafjarðar. Gerður var góður rómur að flutningi kóranna og þeim vel fagnað.
Á efnisskránni voru jóla- og aðventulög af fjölbreyttu tagi og fluttu kórarnir ýmist þau saman eða hvor í sínu lagi. Stjórnendur voru þau Rúna Esradóttir og Jóngunnar Biering Margeirsson, en undirleikarar Judy Tobin og Gylfi Ólafsson.
Kórarnir koma fram í kvöld í Ísafjarðarkirkju og hefjast tónleikarnir kl 20. Aðgangseyrir er kr. 3.500.
Þessu til viðbótar mun karlakórinn koma fram einn síns liðs í félagsheimilinu í Bolungarvík fimmtudaginn 12. desember kl. 20 og er aðgangur að þeim tónleikum ókeypis. Þá mun kvennakórinn koma fram á jólatónleikum sem söngkonan Guðrún Árný stendur fyrir í Edinborgarhúsinu miðvikudaginn 18. desember.