Syntu 24 hringi í kringum Ísland

Landsátakinu Syndum lauk 30. nóvember síðastliðinn en átakið hófst með setningu í Ásvallalaug þann 1. nóvember.

Til þess að taka þátt í átakinu skráðu þátttakendur sig til leiks á heimasíðu Syndum og skráðu metrana sem þeir syntu.

Samtals lögðu landsmenn um 31.271 km að baki, sem samsvarar tæplega 24 hringjum í kringum Ísland. Til samanburðar voru syntir 26.850 km á síðasta ári eða rúmlega 20 hringir í kringum Ísland. 

Það voru sautján grunnskólar og fimm sundfélög og/eða sunddeildir sem tóku þátt í átakinu í ár. Í tilefni af Alþjóðlegum degi barnsins þann 20. nóvember fengum við UNICEF í lið með okkur. Nemendur og iðkendur sundfélaga sem voru í sundi í nóvember voru hvattir til að synda fyrir hreinu vatni, handa börnum sem búa við erfið skilyrði þar sem skortur er á hreinu vatni. Að því loknu voru þrír vinningshafar dregnir úr þeim skólum og sundfélögum sem skráðu sig til leiks.

Vinningshafarnir eru: 
Stekkjaskóli á Selfossi
Skarðshlíðarskóli í Hafnarfirði og
Sunddeild Hvatar á Blönduósi. 
Þau fá hvert viðurkenningu frá UNICEF fyrir að hafa gefið 100.000 vatnshreinsitöflur, sem geta hreinsað 500.000 lítra af hreinu vatni, sem samsvarar vatnsmagni í 25 metra sundlaug.

Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) tók átakið með trompi. Tæplega 179 þátttakendur skráðu metrana sína og syntu yfir tíu þúsund km eða um 8 hringi í kringum Ísland. Innifalið í þeirri tölu eru allar æfingar í djúpu lauginni og það sem skráð var á sundmótum. Sú laug sem var með flesta skráða metra var Ásvallalaug í Hafnarfirði með 11.580,74 km. Næsta sundlaug á eftir var Vatnaveröld í Reykjanesbæ með skráða 8.954,26 km. Sundfélag Hafnarfjarðar á sannarlega sinn þátt í að koma Ásvallalaug á toppinn. Virkilega vel gert og til hamingju Ásvallalaug með árangurinn!

DEILA