Í bókinni Svartir kettir, fullt tungl og rauðhærðar konur eftir Sómon Jón Jóhannsson þjóðháttafræðing er fjallað um hjátrú af ýmsum toga, bæði innlenda og erlenda, gamalgróna og nýja.
Leitast er við að setja efnið fram á skýran og einfaldan hátt með því meðal annars að flokka hjátrúna í efnisflokka svo sem: Dýr, tíminn, líkaminn, ástir og kynlíf, matur og drykkur, athafnir, börn, hlutir, sjúkdómar og dauði.
Flestir þekkja að best er að sneiða hjá svörtum köttum sem hlaupa þvert á leið manna, að það boðar sjö ára ógæfu að brjóta spegil og að talan þrettán er varasöm. Þetta flokkast undir það sem við vanalega köllum hjátrú. Margt annað má nefna eins og:
– Þeir sem eru með blá augu eru gáfaðir, blíðir og skáldmæltir.
– Ótrúar eiginkonur eignast rauðhærð börn.
– Brúðhjón verða að standa svo þétt saman við altarið að ekki sjái á milli þeirra því annars gengur hjónabandið ekki vel.
– Sá sem fær síðustu kaffidropana úr kaffikönnunni eignast kolvitlausa tengdamömmu.
– Ólánsvegur er að mæta svörtum köttum eða öðrum óheillakrákum svo sem rauðhærðum konum, rangeygðum o.s.frv. á leið í próf.
– Börn hætta að vaxa borði þau kertavax.
– Ógift stúlka sem sest við endann á matarborði eignast rangeygðan mann.
– Horfi menn lengi í glerið á örbylgjuofni verða þeir blindir.
– Ekki mega ófrískar konur pissa úti í tunglsljósi því þá verður barnið sinnisveikt.
– Það er ills viti að blístra í leikhúsi.
– Við bakverk er þjóðráð að binda hreina mey á bak sér eða gera band úr hári hennar og leggja við bakið.
– Til að lækna gigt á að taka inn fimm geitaspörð á fastandi maga með hvítvíni, átta daga í röð.
– Það læknar kvef að lykta af óhreinum sokkum.
– Það er góðs viti að mæta tómum líkbíl en menn verða að gæta þess að snúa sér ekki við og horfa á eftir honum. Þá er voðinn vís.