Sveitarstjórn Súðavíkruhrepps afgreiddi um miðjan mánuðinn fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að útsvar verði 14,97% og að afgangur verði af rekstri sveitarfélagsins um 45 m.kr.
Áformað er að framkvæma fyrir 80 m.kr. Þar ber hæst 30 m.kr. vegna stækkunar á landfyllingu á Langeyri vegna Kalkþörungaverksmiðjunnar sem þar á að rísa. Til vatnsveitu og fráveitu er varið 15 m.kr. í hvort verkefni. Loks eru 20 m.kr. merktar til þess að koma upp líkamsræktaraðstöðu.
Samkvæmt síðasta ársreikningi, sem er fyrir 2023, var niðurstaðan af rekstri jákvæð um 113 m.kr. sem er um 25% af tekjum ársins og brúttóskuldir 181 m.kr. sem samsvara um 40% af tekjum.
Handbært fé var 266 m.kr. í lok ársins 2023.