Jón Jónsson á Kirkjubóli, fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, óskaði eftir því við sveitarstjórn Strandabyggðar að hún gæfi álit sitt á því hvort framganga oddvita Strandabyggðar og starfsmanna sveitarfélagsins gagnvart honum,hafi brotið í bága við gildandi siðareglur kjörinna fulltrúa í Strandabyggð og ákvæði í Starfsmannastefnu Strandabyggðar.
Erindið var lagt fram á fundi sveitarstjórnar á þriðjudaginn.
Vísaði Jón þar einkum til skrifa Þorgeirs Pálssonar, oddvita og sveitarstjóra og Hrafnhildar Skúladóttur íþrótta- og tómstundafulltrúa Strandabyggðar, sem að sögn Jóns, innihalda fjölda ásakana í hans garð um meinta sjálftöku úr sveitarsjóði og fleiri misgjörðir.
Í bréfinu segir Jón m.a. : „Það er sérkennilegt að meirihluti sveitarstjórnar hafi leyft þessu einelti starfsmanna Strandabyggðar í minn garð að viðgangast átölulaust. Rétt er að minna hér á að ég er sjálfur ekki í pólitík, sit ekki í sveitarstjórn og hef nákvæmlega engin tengsl við þá tvo framboðslista sem nú skipa sveitarstjórn Strandabyggðar.“
Segir Jón að meirihluti sveitarstjórnar hafi með því að mótmæla ekki ásökunum leyft ósannindum að grassera í samfélaginu.
Nú séu komnir tveir nýir sveitarstjórnarmenn komnir til starfa eftir að tveir sögðu af sér á síðasta fundi.
„Nú þegar nýtt fólk er komið í sveitarstjórn fyrir Strandabandalagið, og er þar með í meirihluta sveitarstjórnar, vil ég með þessari beiðni kanna hvort viðhorfin hafi breyst eða hvort sveitarstjórninni finnist þetta allt saman jafn eðlilegt og áður.“
Framgangan hafi brotið í bága við siðareglur
Fulltrúar A listans, sem eru í minnihluta, bókuðu að þeir teldu að framganga oddvita Strandabyggðar, Þorgeirs Pálssonar hafi brotið í bága við bæði Siðareglur kjörinna fulltrúa í Strandabyggð og ákvæði í Starfsmannastefnu Strandabyggðar. Einnig að framganga starfsmanns Strandabyggðar, Hrafnhildar Skúladóttur hafi brotið í bága við ákvæði í Starfsmannastefnu Strandabyggðar.
Samþykkt var með 3 atkvæðum gegn 2 að erindinu í heild verði vísað til lögfræðings sveitarfélagsins sem og lögfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga til skoðunar. Varaoddvita Gretti Erni Ásmundssyni var jafnframt falið að fylgja málinu eftir.