Strandabyggð ákvað að hækka fasteignaskatt af íbúðahúsnæði og atvinnuhúsnæði um 25% á næsta ári vegna erfiðrar fjárhagsstöðu og verður skatturinn 0,625% af íbúðarhúsnæði og 1,65% af atvinnuhúsnæði. Sveitarstjórnin nýtir þar heimild í lögum til þess að hækka álagningu um 25%. Þessu álagi var beitt á árunum 2021 til 2023 en var fellt niður á þessu ári 2024. Almennar gjaldskrárhækkanir verða 3,9% á næsta ári.
Fjárhagsáætlunin fyrir 2025 ásamt aætlunum fyrir 2026-2028 var afgreidd í síðustu viku.
Tekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar verða 1.47 m.kr. á næsta ári og afgangur 25 m.kr. eftir rekstur, fjármagnskostnað og afskriftir.
Til framkvæmda er ætlað að verja 127 m.kr. Til framkvæmda við skóla verða 34,7 m.kr. Til innviða fara 20 m.kr. og 18 m.kr. vegna Brákar, leiguíbúðafélags. Þá er áætlaðar 17,9 m.kr. til vatnsveituframkvæmda og 16 m.kr. til vatnsveitu. Innviðaframkvæmdir eru aðal- og deiliskipulag, hönnun Brandsskjóla og hótelreits og hönnun gatna. Framkvæmdir við fráveitu eru að hefja endurhönnun frárennsliskerfis og uppsetningu hreinsistöðva á Hólmavík og við vatnsveitu er það að hefja undirbúning að endurnýjun geislatækis hjá vatnsveitu, auk nýs dæluhúss.
Í geinargerð með fjárhagsáætluninni segir Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri að framundan séu síðan breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs, sem muni skerða framlög til Strandabyggðar um amk 70 milljónir. og að sérstökum fjárstuðningi innviðaráðherra til Strandabyggðar lauk á árinu, sem einnig þýðir tekjuskerðing frá fyrri árum.
„Það er því ljóst að Strandabyggð þarf enn um sinn að herða ólina, leita leiða til sparnaðar og huga að öllum mælikvörðum og viðvörunarljósum þegar kemur að lántökum og skuldsetningu. Einnig þarf að fullnýta heimildir til álagningar skatta og gjalda, a.m.k tímabundið, til að auka tekjur sveitarfélagsins. Að öðrum kosti viðhelst hér veruleg innviðaskuld og svigrúm sveitarfélagsins til vaxtar og sóknar verður lítið sem ekkert.“