Fram kom á fundi Strandabyggðar í gær að tveir fyrrverandi sveitarstjórnarmenn Strandabyggðar hefðu í byrjun október átt samtal við einstakling í sveitarfélaginu, Jóhann Lárus Jónsson og það hefði verið tilefni þess að þau bókuðu að þau hefðu orðið fyrir hótunum og að þau hefðu leitað til lögfræðings sveitarfélagsins og söfðu að „Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa. Svona hegðun hefur mikil áhrif á okkar fjölskyldu og vini í ljósi þess í hversu litlu samfélagi við búum.“ Tilkynntu þau um væntanlega afsögn sín af þeim sökum.
Í yfirlýsingu fulltrúanna fyrrverandi er rakinn aðdragandi samskiptanna og að aðilar hafi nú hist og farið yfir samskiptin. Hafi Jóhann tekið fram að ekki hafi verið um hótanir að ræða af hans hálfu en mögulega eitthvað óheppilega orðið. Niðurstaða yfirlýsingarinnar er aðilar hafi náð sáttum og að málinu sé lokið.
Í framhaldi af yfirlýsingunni bókar fulltrúi A lista Matthías Sævar Lýðsson að
„Sveitarstjórnarmenn A-lista fagna því að samkomulag hafi náðst milli fyrrverandi sveitarstjórnarmanna og Jóhanns Lárusar Jónssonar.
Í bókun Óskars Hafsteins Halldórssonar og Sigríðar Guðbjargar Jónsdóttur frá sveitarstjórnarfundi 8. október stendur: „Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa“. Nú hefur komið fram að enginn af fulltrúum A-lista eða fjölskyldum þeirra hafa hótað þessum fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúum T-lista eða öðrum á þeim lista. Það er með ólíkindum að kjörnir fulltrúar hafi fullyrt slíkt á sveitarstjórnarfundi, sem nú kemur fram að er ósatt.“
Þorgeir Pálsson oddviti brást við með bókun þar sem segir:
„Það er ómögulegt fyrir þau okkar sem hér eru að setja okkur í spor þeirra sveitarstjórnarmanna sem fengu hótanir, sem ollu því að þau óskuðu eftir lausn frá störfum. Það er sömuleiðis ómögulegt fyrir okkur að meta og skilgreina hvað felst í orðinu bakland og það dugar flestum að fylgjast með orðum og skrifum á samfélagsmiðlum til að vita um hvað málið snýst. En ég skil vel áhyggjur A-lista fólks því við í T-lista þekkjum vel hvað er að sitja undir rangri sök. Ég hvet A-lista fólk til að gera grein fyrir sinni stöðu hvað þetta mál varðar og koma þar með í veg fyrir frekari mistúlkun.“