Sótt um 47 ha skógrækt á Brekku í Dýrafirði

Lögð hefur verið fram umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 47,1 ha skógrækt á jörðinni Brekku í Dýrafirði. Landið var nýtt til beitar uns fjárbúskap lauk á Brekku árið 2018. Svæðið er hlíðin ofan Hrafnseyrarvegar í Brekkudal í suður frá Brekkuhálsi. Svæðið liggur í milli 80 og 140 metra hæð yfir sjávarmáli.

Land og skógur hefur tekið út landið og samþykkt að gera samning um skógrækta á tilgreindu svæði svo fremi að framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu liggi fyrir.

Skammt frá er eldra skógræktarsvæði, sem var að stærstum hluta gróðursett árin 2010-2015 og 2022. Reitur innan þessa svæðis var gróðursettur af Ungmennafélaginu á Þingeyri árin 1949-1960.

Ætlunin er að gróðursetja bartré (lerki og greni) í hlíðina neðanverða en í efri hluta svæðisins verði um að ræða gisna birki gróðursetningu sem með tíð og tíma mun væntanlega vaxa og þéttast og mynda samfellt birkikjarr.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að umbeðið framkvæmdaleyfi verið veitt að fenginni umsögn minjavarðar Vestfjarða.

DEILA