Á laugardaginn fóru kvenfélagskonur í Hnífsdal í heimsókn til Ingvars Friðbjarnar skipasmiðs og listamanns í Hnífsdal sem smíðar líkön af skipum af mikilli list. Hefur hann aflað sér teikninga af togurum, meðal annars breskum og smíðað líkön af þeim af mikilli vandvirkni og nákvæmni.
Þórunn G. Jónsdóttir, formaður kvenfélagsins Hvatar segir að þeim hafi langað til að þakka Ingvari eða Inga Bjössa eins og hann er alltaf kallaður fyrir það óeigingjarna starf sem hann af einlægum áhuga fyrir sögu skipa og sjómanna á Íslandi leggur á sig af mikilli natni og listfengi.
„Það er óhætt að segja að við sem heimsóttum hann í dag urðum bæði orðlausar og heillaðar. Þvílík listasmíð sem þessi skip eru og ekki bara það heldur útsjónasemi smiðsins í að finna hluti sem hann getur notað í smíðina er alveg ótrúleg. Ingi Bjössi er líka fullur af fróðleik og gaman að hlusta á hann segja frá skipunum, smíðinni og lífi sjómanna hér við land.“
Færðu kvenfélagskonur Inga Bjössa peningagjöf í þakklætisskyni og sagði Þórunn að þær vildu vekja athygli á starfi hans og hvetja Vestfirðinga sem landsmenn alla til þess að koma þar við og skoða smíðina sem þar er.
Eitt líkanið í skipasmíðastöð Inga Bjössa. Þetta mun vera breskur togari.
Viðurkenningaskjalið sem Hvöt færði Ingvari Friðbirni.
Myndir: Eygló Jónsdóttir.