Í Radarinum, fréttabréfi samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, er yfirlit yfir útfutningsverðmæti af ýsuafurðum frá Íslandi fyrstu 10 mánuði þessa árs og það borist saman við Noreg. Er vakin athygli á því að ýsan frá Íslandi er mun meira unnin áður en afurðirnar eru fluttar út en gerist í Noregi, þar sem ýsan er meira og minna flutt út heil og óunnin.
Á fyrstu tíu mánuðum ársins hafa Íslendingar flutt út tæplega 32 þúsund tonn af ýsuafurðum fyrir tæpa 28 milljarða króna. Á sama tíma hafa Norðmenn flutt út rúmlega 45 þúsund tonn af ýsuafurðum fyrir rúma 19 milljarða króna. Samanlögð hlutdeild á heilli og hauskorinni ýsu, kældri eða frystri, í heildarútflutningi á ýsu var 31% á Íslandi en 94% í Noregi, en hér er miðað við magn.
Þetta þýðir að verðmætið pr. kg fyrir ýsuna frá Íslandi er tvöfalt meira en fékkst fyrir ýsuna frá Noregi.
Hærra verð frá Íslandi
Birt er samantekt yfir afurðaverð fyrir útfluttan þorsk, ýsu og ufsa á síðasta ári bæði frá Íslandi og Noregi. Þar sést að fyrir þorskinn frá Íslandi fékkst 1.210 kr/kg en 989 kr/kg fyrir norska þorskinn. Skýringin liggur ienkum í því að frá íslandi var þorskurinn fluttur út meira unninn en var frá Noregi.
Fyrir ýsuna var munurinn enn meiri. Þar fékkst í fyrra 952 kr/kg fyrir ýsuna frá Íslandi en aðeins 385 kr/kg fyrir ýsuna frá Noregi. Einnig var verðmæti islenska ufsans mun meira eða 756 kr/kg á móti 444 kr/kg. Skýringin á þessu mismunandi verðmæti liggi að mestu leyti í mismunandi vinnslustigi á afurðunum.
samþætting markaðar eða samkeppni ?
Samtökin draga þá ályktun að:
„Þennan áherslumun landanna tveggja, þegar kemur að því að vinna og flytja út ýsu, þorsk og ufsa, má að mestu leyti rekja til ólíks skipulags á veiðum og vinnslu. Grundvöllur sjávarútvegs hér á landi byggist á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Það leiðir til þess að keppst er við að hámarka gæði og verðmæti afurða allan ársins hring. Það hefur jákvæð áhrif á örugg heilsárstörf í sjávarútvegi hér á landi, ólíkt því sem gerist í Noregi. Þar er grundvallarreglan sú að veiðar og vinnsla eru aðskilin þar sem keppst er við að veiða fiskinn þegar auðveldast er að ná í hann. Þetta veldur augljóslega fiskvinnslu þar í landi miklum erfiðleikum þar sem framboð á fiski, sem jafnframt getur verið í mismiklum gæðum, getur verið mjög mikið yfir stutt tímabil. Störfin eru því árstíðabundin, auk þess sem ekki er hægt að sinna kröfum einstakra markaða allan ársins hring.“
Línurit úr Radarnum.