Landhelgisgæslan hefur gefið út ritin Sjávarfallatöflur 2025 og Sjávarfallaalmanak 2025 sem fáanleg eru hjá söluaðilum sjókorta.
Sjávarfallatöflur 2025 innihalda útreikninga starfsfólks sjómælinga- og siglingaöryggisdeildar á sjávarföllum fyrir Reykjavík, Ísafjörð, Siglufjörð, Djúpavog og Þorlákshöfn ásamt breytitöflum fyrir flestar aðrar hafnir landsins.
Sjávarfallaalmanak 2025 inniheldur útreikning á sjávarföllum í Reykjavík og er sjávarfallalínurit fellt yfir dagatal hvers mánaðar ásamt upplýsingum um tíma- og hæðarútreikninga fyrir aðra landshluta. Þá eru einnig birtar upplýsingar um kvartilaskipti tungls.
Á þessu ári eru 70 ár liðin frá því að Sjómælingar Íslands, sem nú er sjómælinga- og siglingaöryggisdeild Landhelgisgæslunnar, gaf fyrst út töflur yfir sjávarföll í Reykjavík og flóðbið annarra staða við Ísland.