Nú liggja fyrir úrslitin úr Alþingiskosningunum og ljóst að þau eru nokkuð fjarri því sem kannanir spáðu um allt fram á kjördag segir Ólafur Adolfsson, alþm og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. „Ég hef að sjálfsögðu mestan áhuga á útkomu Sjálfstæðisflokksins og vil segja um hana að það er hverjum sanngjörnum manni ljóst að niðurstaðan var okkur mun hagfelldari en flestir höfðu spáð. Því vil ég þakka öflugu kosningastarfi sjálfstæðisfólks um allt land. Niðurstöður kosninga boða ekki að stjórnarmyndun verði auðveld eða einföld og ljóst að mynda þarf þriggja flokka ríkisstjórn með tilheyrandi málamiðlunum sem geta valdið kjósendum viðkomandi flokka vonbrigðum.“
Ólafur segir að í Norðvesturkjördæmi hafi Sjálfstæðisflokkurinn náð því markmiði sínu að eignast fyrsta þingmann kjördæmisins að nýju með öflugum frambjóðendum, skýrri stefnu og þrotlausri vinnu og dugnaði stuðningsfólks.
Ólafur var inntur eftir hver yrðu helstu baráttumál hans.
„Ef ég horfi til þeirra verkefna sem brenna á í Norðvesturkjördæmi og kynntar voru okkur frambjóðendum í aðdraganda kosninga þá vil ég segja bættar samgöngur sem varða stærstan hluta af kjördæminu, atvinnumál og verðmætasköpun, orkumál og heilbrigðismál á breiðum grunni og í raun öll þau mál sem snerta hagsmuni okkar í kjördæminu og reyndar á landinu öllu. Þá mun ég beita mér fyrir góðri samvinnu allra þingmanna Norðvesturkjördæmis og saman verðum við öflugur málsvari kjördæmisins.“
Hvaða sjórnarmynstur sérðu fyrir þér?
„Eins og atburðarrásin er að teiknast upp þá sýnist mér að það gæti orðið hlutskipti okkar Sjálfstæðismanna á þessu kjörtímabili að byggja flokkinn okkar upp í sterkri stjórnarandstöðu, skerpa á málefnastöðu okkar og vera öflugur málsvari sjálfstæðisstefnunnar á Alþingi. Valkostur við það væri þá borgaraleg ríkisstjórn til hægri en þau spil hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki á hendi eins og er.“