Ný bók – Baukað og brallað í Skollavík

Í bókinni Baukað og brallað í Skollavík er lesendum boðið í heillandi ferðalag til eyðibyggða Hornstranda í ægifagurri náttúru fjarri skarkala nútímans. Sagan hefst í húsi ömmu og afa á Ísafirði en svo er siglt til Skollavíkur. Í Skollavík situr enginn aðgerðalaus, þar er nóg við að vera þótt engir vegir liggi þangað og símasamband náist aðeins á einum litlum hól. Gullfallegar myndir Hlífar Unu Bárudóttur draga lífið í Skollavík ljóslifandi fram og gera söguna enn áhugaverðari.

Guðlaug Jónsdóttir – Didda, er matreiðslumeistari að mennt, bætti við sig kennsluréttindum og hefur kennt heimilisfræði í Grunnskólanum á Ísafirði í mörg ár. Samhliða hefur hún fengist við ritstörf, en hún og eiginmaður hennar, Karl Ásgeirsson, eru höfundar að hinni vestfirsku matar- og menningarbók, Boðið vestur, en hún var endurútgefin af Bókafélaginu í vor. Árið 2021 gáfu þau hjón út barnabókina, Í huganum heim, sem Guðlaug er höfundur að og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Barnabækurnar tvær eiga það sameiginlegt að höfða í raun ekkert síður til fullorðinna en barna og eru því kjörnar til að brúa kynslóðabilið.

Útgefandi Baukað og brallað í Skollavík er Bókafélagið.

DEILA