Það eru óneitanlega jákvæð tíðindi að búið sé að bjóða út síðasta áfanga vegagerðar um Dynjandisheiði. Þetta lá svo sem í loftinu, einkanlega eftir að það var skrifað inn í texta nefndarálits meirihluta fjárlaganefndar fyrir árið 2025 að meðal annars mætti ráðast í þessa framkvæmd sem og að ljúka þverunum á Gufufirði og Djúpafirði.
Óneitanlega er það líka mikill léttir að sjá að í útboðslýsingu er gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdinni á Dynjandisheiðinni 30. september árið 2026 og framkvæmdatími því áætlaður um hálft annað ár. Enn fremur er það fagnaðarefni að í útboðinu felast framkvæmdir á 800 metra kafla á Dynjandisvegi, sem væntanlega þýðir nýjan veg að fossinum Dynjanda, einni helstu náttúruperlu Íslands, sem þúsundir manna sækja heim á ári hverju.
Næsta vers
En þá hefst næsta vers, sem er að hefja og ljúka öðru stóru og brýnu verkefni í vegagerð á Vestfjörðum, í samræmi við græna ljósið sem Alþingi gaf á þá framkvæmd núna á aðventunni. Það er lúkning á leiðinni um Gufudalssveitina, með þverunum á Gufufirði og Djúpafirði.
Eins og ég hef áður rakið í ítarlegra máli hér í bb.is þá hefur sú framkvæmd tafist frá því sem áður var áformað. Í full fjármagnaðri samgönguáætlun, sem Alþingi samþykkti og gilti fyrir árin 2020 til 2024, var ráð fyrir því gert að vegagerðinni um Gufudalssveitina lyki á árinu 2023 og Dynjandisheiðinni á þessu ári. Þetta voru langþráðar framkvæmdir sem kostuðu gríðarlega mikla og harða baráttu, líkt og ég rakti fyrr, á síðum þessa ágæta fjölmiðils. Sjá krækjur hér að neðan.
Tveggja til þriggja ára tafir hafa orðið á framkvæmdunum
Nú hafa komið opinberlega fram upplýsingar um að gripið hafi verið til þess ráðs að færa fjármuni sem Alþingi hafði eyrnarmerkt framangreindum framkvæmdum á Vestfjörðum, (Dynjandisheiði og Gufudalssveit) til annarra verkefna, svo þar mætti halda fullum dampi.
Um þetta má hafa mörg orð. En ekki þýðir að ergja sig endalaust yfir fortíðinni. Þó skal á það minnt að þetta háttalag mun óhjákvæmilega leiða til tafa á framkvæmdum á þessari leið um að minnsta kosti tvö ár.
Blóð, sviti og tár
Nú hefur verið boðað að innan skamms verði ráðist í útboð á þverunum Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Verður það lokaáfanginn á langþráðri vegagerð sem á sínum tíma var haldið árum saman í gíslingu og tafði þannig bráðnauðsynlegar framkvæmdir sem Alþingi og samgönguyfirvöld höfðu ákveðið. Það er því mikið fagnaðarefni að loks hilli nú undir lokahnykkinn á vegagerð sem hefur kostað langvinna baráttu; og eiginlega blóð, svita og tár.
Þessi framkvæmd ein og sér mun stytta leiðina um Vestfjarðaveg um 12 kílómetra.
Ófrávíkjanleg krafa um að verkið verði unnið svo hratt sem unnt er
En þá er að gá að einu. Eitt er að ákveða og auglýsa útboðið. En einnig þarf að taka ákvörðun um lengd verktímabilsins. Það er sjálfsögð og algjörlega ófrávíkjanleg krafa að verkið verði unnið svo hratt sem tæknilega er unnt. Allt annað eru óviðunandi brigð. Ekki síst í ljósi þeirra tafa sem hafa verið á þessu verkefni og ég rakti í greinunum hér á BB.is og vísað er til hér að framan. Fyrst vegna deilna um legu vegarins, deilu sem oft var kennd við Teigskóg. En einnig vegna þeirra tafa sem urðu síðar með því að fjármagn skorti, ma vegna þess að það var flutt annað.
Hvenær verður ætlunarverkinu lokið?
Sé það á annað borð tæknilega gerlegt, færi vel á því að vegagerðinni um Gufudalssveitina ljúki eigi síðar en á haustdögum 2026; líkt og framkvæmdum á Dynjandisheiði. Þetta er eðlileg krafa í ljósi þess að í upphaflegri Samgönguáætlun Alþingis ( 2020 – 2024) var gert ráð fyrir að vegagerð í Gufudalssveitinni lyki ári fyrr en á Dynjandisheiði.
Þar með yrði stytting Vestfjarðavegar um 51,4 km komin í höfn.
Heildarvegalengdin frá Ísafirði til Reykjavíkur verður þá 402 km, en til samanburðar er vegalengdin frá Akureyri til Reykjavíkur lítið eitt styttri, 388 km.
Leiðin frá Reykjavík til Patreksfjarðar er núna 388 km, eða jafn löng og frá Reykjavík til Akureyrar. Með þverun ofangreindra fjarða verður vegalengdin 376 km, eða mun styttri en til Akureyrar.
Það er því mikið í húfi og eðlileg krafa að ekki verði frekari tafir á framkvæmdum á þessari leið.
Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi þingmaður Vestfjarða og Norðvesturkjöræmis.