Minning: Vilberg V. Vilbergsson

Með þessum orðum viljum við kveðja kæran vin okkar til margra áratuga, hann Villa Valla.

Andlát hans kallar fram fjölda góðra minninga er rekja má allt aftur til ársins 1949 er við félagarnir í þáverandi skólahljómsveit Gagnfræðaskóla Ísafjarðar hjóluðum inn í Arnardal og hlustuðum á Villa en hann var þá að spila á dansleik í samkomuhúsinu. Á þeim tíma var harmonikkan aðalhljóðfærið. Það var greinilegt að þarna var snillingur á ferð, það fór ekki fram hjá neinum. Við dáðumst af hljóðfæraleikaranum og færni hans. Þetta laugardagskvöld í Arnardal var upphafið að okkar áratuga vináttu. Nokkrum árum síðar bættust þær Guðný og Lillý í hópinn og áttum við fjögur hafsjó góðra minninga, ma. frá fjölda ferða bæði innanlands og erlendis. Villi er Flateyringur og kom til Ísafjarðar í hárskeranám og starfaði við þá iðn nánast til dauðadags. Hin hliðin á starfsævi Villa er tónlistin en eftir hann liggja fjölmörg frumsamin lög og nokkrar útgefnar hljómplötur. Villi var sjálfsmenntaður tónlistarmaður. Auk þess að spila á harmonikku var hann liðtækur á saxafón og hljómborð. Þess má og geta að um tíma stjórnaði Villi lúðrasveit Ísafjarðar. Til viðbótar má nefna hæfileika Villa í myndlist og handiðn en um miðjan aldur gaf hann sér meiri tíma á því sviði og eftir hann liggur töluvert safn góðar mynda og listaverka.

Horft til baka hafði Villi töluverð áhrif á mitt ævistarf. Við Guðjón Baldvin, síðar forstjóri Sambandsins, höfðu farið suður, sótt um og fengið inngöngu í Samvinnuskólann. Á sama tíma var Villi að stofna nýja hljómsveit og vildi fá mig í hópinn. Tónlistin réð ferðinni og hljómsveitin var tekin fram yfir Samvinnuskólann. Spilaði ég síðan með Villa og fleiri úrvalsmönnum í mörgum hljómsveitum, m.a.  undir heitinu VV og VV og Barði.

Eins og margir þekkja var Villi einstakt ljúfmenni og þægilegur í samstarfi og samveru. Einnig má nefna hversu gott samstarfið var með okkur tónlistarmönnunum á Ísafirði þótt samkeppnin væri mikil. Þá spiluðum við nokkrir jass í marga áratugi. Má hér t.d. nefna fjölmörg jasskvöld á Ísafirði, oft um Páska.  Nú síðustu árin þegar Villi átti leið til Reykjavíkur, þá hittumst við félagarnir oft og spiluðum saman á píanó og harmonikku þótt heldur værum við nú farnir að stirðna í spilamennskunni, en höfðum samt gaman af. Það eru líklega ekki margir sem náð hafa að spila saman með innlifun í yfir 70 ár.

Fyrir þá sem vilja vita meira um ævi og störf Villa er bent á að mikið efni má finna með leit á netinu.

Að síðustu viljum við Lillý þakka þeim Villa og Guðný okkar yndislegu kynni á lífsleiðinni. Að öðrum ólöstuðum voru þau okkar bestu vinir og ógleymanleg er að hafa átt svo margar gleði- og ánægjustundir með þeim hjónum. Við sendum börnum þeirra og afkomendum okkar bestu kveðjur.

Lillý og Ólafur Kristjánsson

DEILA