Minning: Vilberg V. Vilbergsson

f. 26. maí 1930 – d. 6. nóvember 2024.

Jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju

14. desember 2024.

Hugnæmar eru minningarnar um ökuferðir til Ísafjarðar á áttunda áratug síðustu aldar og aftur á hinum síðasta þeirrar sömu.  Bókhlaða Gunnlaugs og Láru, bakaríið hjá Rut, góðgætisverslun þeirra Úlfars og Jósefínu í Hamraborg,  höndlun Jónasar Magnússonar í Hafnarstræti 11 og blómabúðin hennar Ástu Fjeldsted í sama húsi, Benni í Mánakaffi, dekkjaverkstæðið hans Jónasar Björnssonar, húsið númer 10 við Pólgötu þar sem áttu heima prófastshjónin góðu og ógleymanlegu, og svo rakarastofa tónsnillingsins Villa Valla.  

Þótt erindið væri raunar að aka bolvískum nemendum í píanóleik til eldhugans og tónlistarfrömuðarins Ragnars H. Ragnar, skólastjóra Tónlistarskólans, hans,  sem mælti þau fleygu orð, að skóli væri ekki hús, heldur fólk, og sannaði  þetta með því að hafa sjálfur að kennslustofu þrönga  kómentu í litlu, bárujárnsklæddu timburhúsi á horni Tangagötu og Austurvegar, – þótt þessi væri tilgangur ferðarinnar, segi ég –  þá fór ekki hjá því að hún væri nýtt til fleiri þarfaverka eftir aksturinn um Óshlíð, þar sem við vegfarendum blasti skilti, sem á stóð: Akið varlega, hætta á grjóthruni. 

            Þegar komið var inn í klippistofu Villa Valla bar fyrir augu tvo volduga stóla með  leðuráklæði, annan við gluggann sem vissi út að Hafnarstræti, en handan götunnar gaf að líta húsið þar sem forðum var bókabúð Matthíasar Bjarnasonar. Fyrir framan þessa stóla hárskeranna, þeirra Villa og Samma, var borð með glerplötu og upp af því tveir stórir, gljáfægðir speglar.  Á borðinu lágu hárbeitt skæri, sem kostuðu varla undir kýrverði, sömuleiðis  egghvassir rakhnífar.  Allt í kringum þessi áhöld varð komumanni starsýnt á safn af marglitum flöskum, úðabrúsum, buðkum, krukkum og staukum og var þetta fullt með allrahanda steinkvatn, sápur, spíra og smyrsl.  Frá þessum fagnaði lagði dásamlegan og óviðjafnanlegan ilm.

            Það sem þó umfram allt jók gestinum eftirtekt á borðinu hjá Villa, voru dálitlar standmyndir, handaverk þessa fjölhæfa snillings, styttur, varla meira en innan við tíu sentimetrar á hæð, búnar til úr grönnum, silfurlitum málmþræði – orðið víravirki kemur í hugann – og sýndu tónlistarmenn með hljóðfæri sín:  Lúðurþeytara, trumbuslagara, bassafiðluleikara og menn, sitjandi með gítar eða dragspil í fanginu.  Þessi líkön voru gerð af svo undraverðum hagleik, að  það var með naumindum að ókunnugir tryðu sínum eigin augum.

            Það mun ekki að taka ofdjúpt í árinni, þótt sagt sé, að Vilberg Vilbergsson hafi um sína daga verið músíkalskastur maður einhver á Íslandi. Ávallt geislaði af honum leikgleðin, þegar hann snerti hljóðfæri; það var engu líkara en að hljómarnir hefðu fleira að herma honum en öðrum mönnum.  Sjálfur samdi hann músík, sem bar vott um ósvikna tónlistargáfu.

            Einatt urðu til skringisagnir á rakarastofunni, enda var hárskerameistarinn léttur í lund og  aðhlæginn. Einhverju sinni kom ungur piltur og bað um klippingu.  “Hvernig viltu hafa hárið?” spurði Villi.  Stráksi svaraði í þessari tuldurkenndu djúprödd, sem er sambræðingur af lunta og feimni:  “Ég vil hafa það eins og bróðir minn”.  “Hvernig hefur hann það?” spurði Villi.   “Hann hefur það ágætt”, muldraði sá stutti.

            Guð blessi minningu drengsins góða, Vilbergs Valdal Vilbergssonar.  Guð blessi byggðina hans í faðmi  fjallanna.   Guð verndi, styrki og huggi ástvini hans alla.

            Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA