Minning: Vilberg V. Vilbergsson

„Hann Villi Valli er dáinn“. Ég þurfti að endurtaka þessi orð fyrir sjálfum mér, svo að þau síuðust inn í vitundina. Svo þyrmdi yfir mig. Gamlar minningar hrönnuðust upp.

VIð liðum um í ljúfum dansi bjarta vornótt fyrir vestan. Eða lögðum við hlustir í rökkurró við kertaljós ,meðan vetrarvindurinn gnauðaði úti. Í báðum tilvikum var gleðigjafinn sá sami: Villi Valli og hans menn sköpuðu stemninguna, eða héldu uppi fjörinu, allt eftir því sem við átti.    Andlátsfregnin þýddi, að nú væri þessu tímabili lokið.

            Sumir kveðja og síðan ekki söguna meir

            aðrir með söng er aldrei deyr

   svo vitnað sé til fleygra eftirmæla Austfjarðaskáldsins góða, Þorsteins Valdimarssonar, um Inga Lár.

Ef segja má með sanni um nokkurn mann, að honum hafi verið flest til lista lagt, þá átti það við um hann Villa Valla. Frá því að harmonikkan kom upp í hendur hans á bernskuárum á Flateyri, voru þau óaðskiljanleg. Við höfum það fyrir satt, að hann spilaði á öll hljóðfæri. Sjálfur sagði hann, að nikkan og saxófónninn væru hans eftirlæti. Listamannseðlið var honum í blóð borið. Hann fékk tónlistina í vöggugjöf.

En það var ekki bara, að allt léki í höndum hans. Sjálfur samdi hann sína tónlist og gaf út á diskum, sem við varðveitum til minningar um hann. Og á efri árum freistaði málaratranan hans líka. Einnig í málverkinu birtist okkur handbragð listamannsins.  Stafalogn pollsins á Ísafirði endurspeglar hnarreist fjöllin. Myndin sú brosir við okkur.

Ég hef lýst því áður, að á göngu um götur Ísafjarðar ómaði músík út um annan hvorn glugga – rétt eins og ég hafði áður upplifað í Bæheimi – þar sem músíkin á sér djúpar rætur. Áhrifa Ragnars H. Ragnar og Villa Valla, alþýðutónskáldsins,  gætir enn í heimabæ okkar.

Í meira en hálfa öld jós hann af nægtabrunni tónlistargyðjunnar, okkur öllum  sem fengum að njóta til gleði og ánægju. Eftir stöndum við  í ógoldinni þakkarskuld við hann. Hans verður sárt saknað.

Jón Baldvin og Bryndís

DEILA