Lilja Rafney: átti ekki von á kjörinu

Lilja Rafney Magnúsdóttir sat á Alþingi í 12 ár fyrir Vinstri græn. Fyrir alþingiskosningarnar 2021 tapaði hún fyrir Bjarna Jónssyni í prófkjöri og var í öðru sæti þá og tapaði þingsætinu til hans. Síðustu þrjú árin hefur hún verið varaþingmaður fyrir Bjarna Jónsson sem svo sagði sig úr Vinstri grænum í haust og gekk í flokk græningja. Lilja Rafney gagnrýndi sumarið 2022 ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur um að taka upp aftur svæðisskiptingu í strandveiðikerfinu og sagðist þá vera hugsi yfir því og spurði hvort hún ætti samleið með Vinstri grænum. Síðasta sumar sagði Lilja Rafney sig úr flokknum eftir að samþykkt hafði verið að kvótasetja grásleppuviðar.

Óvænt sneri Lilja Rafney aftur í framboð fyrir þingkosningarnar á laugardaginn og nú fyrir Flokk fólksins og tók annað sætið á listanum. Það skilaði henni þingsæti.

Jafna búsetuskilyrði, velferðarmál og atvinnumál

Bæjarins besta hafði samband við hana og spurði hana að því hvort hún hafi átt von á því að ná kjöri úr 2. sætinu hjá Flokki fólksins og einnig hver yrðu helstu baráttumál hennar á Alþingi.

„Ég átti ekki von á því að ná kjöri en fékk mjög góð viðbrögð við ákvörðun minni um að gefa kost á mér með Flokki fólksins og fylgja þar með eftir þeim baráttumálum sem ég hef staðið fyrir í gegnum tíðina til sjávar og sveita og eiga þau góðan samhljóm með Flokki flokksins. Mín baráttumál verða m.a. að jafna búsetuskilyrði,velferðar og samgöngumál , sjávarútvegsmál og teysta búsetu í sveitum ásamt málefnum barna ,ungmenna , aldraðra og öryrkja.

Atvinnumál almennt eru mér hugleikin því þau eru m.a. grundvöllur búsetu um allt land og uppbygging innviða. Friður á jörðu og nýting auðlinda í sátt við umhverfið er það sem við öll eigum að berjast fyrir hvar í flokki sem við stöndum. Vona að það náist að mynda stjórn sem byggir á réttlæti og jöfnuði í landinu.

Ég vil þakka öllum sem studdu mig og Flokk fólksins í þessum kosningum og mun gera mitt besta til að vinna vel fyrir land og þjóð.“

Uppfært kl 11:19: Í athugasemd frá Lilju Rafney segir: „Það er og var svæðisskipting en það sem Svandís vildi gera var að auka ekki í strandveiðar svo tryggja mætti 48 daga heldur skipta of litlum aflaheimildum aftur niður á svæði sem hafði valdið mikilli misskiptingu á milli svæða eins og kerfið hafði verið áður.“  

DEILA