Birt hefur verið álit Skipulagsstofnunar á skýrslu Orkubús Vestfjarða um umhverfismat fyrir Kvíslartunguvirkjun í Steingrímsfirði. Hyggst Orkubúið reisa 9,9 MW virkjun í Selárdal norðan megin í Steingrímsfirði. Gert er ráð fyrir þremur stíflum, 13-18 m háum og rúmlega 2 km að lengd í heildina, fjórum lónum miðað við skurðum og stöðvarhúsi auk veglagningar, efnistöku og haugsetningar. Alls mun verða beint rask á um 320 ha svæði miðað við valkost 3 sem er aðalvalkostur framkvæmdaraðila, þar af ná lón yfir tæplega 250 ha.
Í skýrslunni er lagt mat á breytingar sem verða vegna virkjunarinnar á vatnafar, jarðmyndanir, gróður og vistgerðir, fugla, fornleifar, landslag og ásýnd og samfélag.
Varðandi samfélagsleg áhrif kemur fram að Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði könnun meðal íbúa Strandabyggðar. Í könnuninni kom fram að um 80% aðspurðra telji að áhrif Kvíslatunguvirkjunar á útivist og ferðaþjónustu verði engin eða jákvæð og að tveir þriðju hlutar telji virkjunina góðan kost. Þá segir í áliti Skipulagsstofnunar að „Í heildina eru viðhorf heimamanna í Strandabyggð frekar eða mjög jákvæð gangvart Kvíslatunguvirkjun og litlar til miðlungs líkur eru á að framkvæmdin valdi deilum í samfélaginu í Strandabyggð.“
Þá telji framkvæmdaraðili að samfélagsleg áhrif verði til lengri tíma talsvert jákvæð vegna óbeinna áhrifa af auknu raforkuöryggi og aðgengis að raforku, sem talin er skapa forsendur fyrir uppbyggingu atvinnulífs í byggðalaginu. Heildarniðurstaða framkvæmdaaðila er að Kvíslatunguvirkjun hafi talsvert jákvæð áhrif á samfélag, ferðaþjónustu og útivist og þau áhrif vari til langs tíma.
Þegar lýst er mati Skipulagsstofnunar á samfélagslegum áhrifum kveður við annan tón. Þar segir um spurningakönnun RHA að rannsóknin náði til íbúa Strandabyggðar sem og til ferðaþjónustuaðila og forsvarsmanna útivistarfélaga í sveitarfélaginu en hafi ekki náð til almennra ferðamanna, innlendra eða erlendra. Þá hafi í könnuninni komið fram ýmis sjónarmið varðandi hugsanleg áhrif á ferðaþjónustu og útivist og að mati Skipulagsstofnunar sé ljóst að við svo umfangsmiklar framkvæmdir á óröskuðu svæði sé viðbúið að áhrif á þessa þætti geti verið neikvæð.
Skipulagstofnunin dregur í efa hin jákvæðu áhrif og segir í áliti sínu að „óvissa sé um þau áhrif sem Kvíslatunguvirkjun muni hafa á samfélagið í Strandabyggð og nærliggjandi byggðum hvað varðar atvinnu, en þó séu þau líkleg til að verða óveruleg.“
Stofnunin nefnir aukið raforkuöryggi svæðisins ekki einu orði né aukið framboð á raforku. Þar sér hún ekki nein jákvæð áhrif. Þess í stað er miklu púðri eytt í umfjöllun um áhrif á „umfangsmikið svæði innan svæðis sem fellur undir skilgreiningu á óbyggðum víðernum og sem í dag er að langmestu leyti óraskað og mun ásýnd þess taka verulegum breytingum með tilkomu virkjunarinnar. Í stað óraskaðrar ásýndar þess mun svæðið fá yfirbragð iðnaðarsvæðis sem einkennist af misumfangsmiklum mannvirkjum.“ Skipulagstofnun segir svo í niðurstöðukafla sínum um samfélagslegu áhrifin að „hætt við því að upplifun þeirra sem stunda eða vilja stunda útivist á áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda og sækja í náttúrulegt umhverfi komi til með að breytast miðað við núverandi aðstæður.“
Ekki er vikið einu orði að því hvert mat Skipulagstofnunar er af virkjuninni á samfélagið.
Heildarmat Skipulagstofnunarinnar að teknu tilliti til allra sjö matsþáttanna er að „framlagðir valkostir koma til með að hafa neikvæð áhrif á flesta þá umhverfisþætti sem eru til mats í þessu máli. Ljóst er að aðalvalkostur framkvæmdaraðila, valkostur 3 mun hafa neikvæðustu áhrifin vegna umfangs framkvæmda sem ráðast þarf í skv. honum.“ Gerir stofnunin athugasemdir við áhrif á vatnafar og áhrif á upplifun útvistarfólks.