Björgunarmenn frá þremur sveitum Landsbjargar á Vestfjörðum voru kallaðir út í kvöld til hjálpar bílum sem voru i vandræðum á Kletthálsi. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu voru tveir bílar með 9 manns fastir og þurftu aðstoð.
Bíll kom frá Heimamönnum á Reykhólum og losaði bíl sem var fastur austanmegin í hálsinum og hálpaði honum svo niður í Kollafjörð. Annar bíll frá sveitinni Lómfelli á Barðaströnd aðstoðaði annan bíl sem var vestan megin í hálsinum og á vesturleið. Björgunarmenn frá Blakki á Patreksfirði tóku svo við og fylgdu ferðalöngunum yfir Kleifaheiði.
Jóhann Pétur Ágústsson á Brjánslæk fór í útkallið á vegum Lómfells og sagði við Bæjarins besta að aðgerðir hefðu gengið vel og allt hefði farið vel.
Þá voru björgunarsveitir kallaðar út í Borgarfirði, Húnavatnssýslum og í Skagafirði til að aðstoða ferðalanga á Holtavörðuheiði, í Blönduhlíð og á Vatnsskarði.