Eyrarkláfur ehf vinnur að gerð umhverfismats fyrir kláfi upp á Eyrarfjall í Skutulsfirði í samstarfi við Rorum ehf. Þá er unnið að tillögum til breytinga á aðal- og deiliskipulagi í samstarfi við Eflu.
Fyrir þremur árum gerðu Eyrarkláfur og Ísafjarðarbær viljayfirlýsingu um verkefnið sem er sagt jákvætt fyrir bæjarfélagið og kláfurinn ásamt veitingastað geti aukið aðsókn ferðamanna.
Stefnt er að því að ákvörðun um fjárfestingu í fullhönnun verkefnisins verði tekin eigi síðar en 1. mars 2025.
Í bréfi Gissurar Skarphéðinssonar til Ísafjarðarbæjar 24. nóvember sl. er farið fram á vilyrði fyrir nýtingu landssvæðis og að gengið verði til samninga um úthlutun á lóðum fyrir íbúðar-, sumarhúsa- og atvinnuhúsnæði sem samþykktar voru 17. nóvember 2022.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að útbúa samning um afnot af svæði til skipulagsgerðar með vísan til 6. gr. reglna um úthlutun á lóðum fyrir íbúðar-, sumarhúsa- og atvinnuhúsnæði, og leggja fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd til afgreiðslu.