Einu sinni keypti hún mamma mín sérstakt aðventukerti. Á því voru númer frá einum og upp í tuttugu og fjóra; svona eins og á jólaalmanakinu, – þar sem ég gat opnað glugga á hverjum degi og séð hvaða mynd var í glugganum. Og nú var komið aðventukerti, sem mátti brenna niður á hverjum degi um eina tölu. Ég horfði spenntur á kertið brenna niður. Spennan jókst eftir því, sem kertið brann nær tölustafnum 24.
Ég var líka heillaður af loganum á kertinu; hvernig hann flökti og lýsti upp dimmuna á borðinu. Loginn var svo fallegur. Og af einhverjum barnaskap þá setti ég fingurinn minn inn í logann. Æ, æ, hrópaði ég og hljóp grátandi fram í eldhús til mömmu. Og hún lét kalt vatn renna á puttann. Svo var köldu skyri og tusku vafið um fingurinn og til að hugga mig þá gaf hún mér jólasmákökur.
Af einhverjum ástæðum þá man ég enn eftir þessu atviki þegar ég brenndi mig á aðventukertinu. Það er merkilegt að svona fallegur hlutur eins og logi á kerti, geti líka meitt mann og brennt, – og ekki aðeins fingurinn á litlum dreng. Eitt kerti getur kveikt í heilu húsi og brennt það.
Í upphafi sagði Guð: „Verði ljós og það varð ljós!“ Ljósið er undirstaða lífsins hér á jörðu. Það er upphaf alls. Og þessi sköpunarmáttur Guðs, ljós lífsins birtist í upphafi og svo aftur fyrir tvö þúsund árum síðan í einum tilteknum manni, litlu barni, sem lagt var í jötu. „Í upphafi var Orðið, og Orðið var Guð“, eins og segir í jólaguðspjallinu.
Ljósið er tákn lífsins og jólanna. Ljósið minnir okkur á Jesú Krist, sem er ljós heimsins því boðskapur hans lýsir mannfólkinu. Boðskapur jólanna um að Guð elski okkur mennina er eins og ljós í myrkri, sem vekur okkur vonir. Manneskjan er ekki einsömul hér í heimi, Guð er hjá henni, það er boðskapur jólanna. Óttast þú ekki, segja jólin, Guð hefur vitjað þín, hann kemur til þín í litlu Jesúbarni, í fallegum englasöng jólanna.
Og Jesús sagði ekki aðeins það að hann sjálfur væri ljós heimins. Heldur sagði hann líka við okkur mennina: „Þér eruð ljós heimsins. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góðverk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ Já, við mennirnir eigum að endurkasta ljósi Krists út í heiminn, við eigum að endurkasta ljósi kærleikans og vonarinnar áfram til nágranna okkar og vina. Og alveg sérstaklega eigum við að gera þetta á aðventu og á jólum, á hátíð ljóss og friðar eigum við að auðsýna kærleika jafnt í orði sem verki. Ljós okkar á að lýsa. Við eigum að lýsa eins og jólaljósin.
Eins og kertið brenndi puttann á litlum strák fyrir margt löngu síðan, þá getum við mennirnir notað ljós okkar og mátt til að brenna aðra, til að skemma, meiða og eyða Guðs góðu sköpun. Það er alvarlegt að það skuli enn vera svona margir menn í heiminum, sem vilja nota ljós sitt, mátt sinn og megin til að skemma og eyða. Styrjaldir úti í heimi eru eyðandi eldur, þar sem hugvit mannsins og máttur er nýttur til illvirkja.
Kæru vinir, við skulum biðja fyrir friði. Við skulum ganga á Þorláksmessu og kalla eftir friði. Og á sjálfum jólunum þá skulum við loka augunum og segja saman í sálum okkar: „Góði Guð, gefðu frið á jörðu. Amen.“ Ef allt mannkyn myndi gera þetta þá yrði friður.
Guð gefi þér og þínum gleðileg jól!
Magnús Erlingsson,
prófastur á Ísafirði.