Ísafjarðarbær: tekjur hafnasjóðs losa milljarð á næsta ári

20.júlí sl. voru tvö stór skemmtiferðaskip við Sundabakka og eitt lá við akkeri útar. Við Mávagarð lá laxaflutningskip til marks um gróskuna á Vestfjörðum sem tengjast þessum atvinnugreinum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tekjur hafnasjóðs munu fara yfir milljarð króna á næsta ári samkvæmt tillögu að fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2025 sem er til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi í dag.

Gjöld hafnasjóðs eru liðlega helmingur teknanna afgangur því nálægt hálfum milljarði króna. Mikil breyting hefur orðið á afkomu hafnasjóðsins frá covidárinu 2020 þegar gjöldin voru hærri en tekjurnar. Tekjurnar hafa ríflega fimmfaldast á þessum tíma og eru áætlaðar á þessu ári nálægt milljarði króna.

670 m.kr. framkvæmdir

Framkvæmdageta hafnasjóðs er mikil veegna hinnar góðu afkomu. Samkvæmt tillögunni að fjárhagsáætlun er áætlað að framkvæma fyrir 670 m.kr. Þar af eru 458 m.kr. við framkvæmdir á Ísafirði. Meðal framkvæmda á næsta ári eru gatnagerð við Hrafnatanga þar sem gatan verður flutnings- og
aðkomuleið að Sundabakka þegar girðing er lokuð vegna hafnverndar. Mikil þörf er á að lengja viðlegukanta fyrir ferðaþjónustubáta í Sundahöfn, þar sem þeim hefur fjölgað og þeir stækkað undanfarin
ár. Stefnt er að því að fjölga viðleguplássum fyrir skútur og minni báta á Ísafirði og halda áfram frágangi
og byggingu þjónustuhúss við gamla olíumúlann. Þá er verið að hanna móttökuhús, og gönguleiðir fyrir farþega frá Sundabakka yfir að Byggðasafni og Sundahöfn, að Mávagarði til að tryggja öryggi þeirra og aðskilja þá eins og hægt er frá vinnusvæðum á hafnarsvæðinu.

Á Suðureyri er áætlað að stækka höfnina og bæta við einni flotbryggju til að auka viðlegurými. Kostnaður er 62 m.kr. og fást 37,5 frá ríkissjóði. Hlutur hafnasjóðs verður 24,5 m.kr.

Á Þingeyri er áætlað að kaupa stál til að endurbyggja hafskipabryggjuna árið 2025. Kostnaður er 150 m.kr. og þar af greiðir ríkið 112,5 m.kr. Hlutur hafnasjóðs verður því 37,5 m.kr.

Hlutur hafnasjóðs í framkvæmdunum öllum verður 520 m.kr.

DEILA