Bæjarstjón Ísafjarðarbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum fyrir jól ítarlegar reglur um fjárhagsaðstoð. Ekki kemur fram hvort breytingar hafi verið gerðar á fyrri reglum sem um fjárhagsaðstoð giltu.
Í markmiðsgrein reglnanna segir að reglur Ísafjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð skuli tryggja að einstaklingar og fjölskyldur sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar fái fjárhagsaðstoð, ráðgjöf og stuðning. Markmið ráðgjafar og stuðnings er að gera einstaklingum kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar. Fjárhagsaðstoð skal veitt fólki í tímabundnum erfiðleikum og er hugsuð sem stuðningur til að mæta grunnþörfum einstaklinga.
Tekið er fram að fjárhagsaðstoð er eingöngu ætluð til framfærslu en ekki til fjárfestinga eða greiðslu skulda við banka, sparisjóði eða aðrar lánastofnanir, s.s. greiðslukortafyrirtæki og að fjárhagsaðstoð skuli veitt þeim einstaklingum sem ekki eiga réttindi annars staðar.
Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar er 217.257 kr. á mánuði. Hjón eða sambýlisfólk fá 1,6 sinnum grunnfjárhæð eða 347.611 kr. Fyrir hvert barn er veittur 10% viðbótarstuðningur af grunnfjárhæð. Einstaklingur 18 ára eða eldri sem býr hjá öðrum, svo sem foreldrum fær 60%.
Mögulegt er að fá viðbótarstuðning til greiðslu á greiðslu vegna tannlækninga, sérfræðikostnaðar, fermingarkostnaðar, til læknisferða og til útfararkostnaðar.
Starfsmenn Ísafjarðarbæjar afgreiða erindi sem berast. Ákvörðun um synjun fjárhagsaðstoðar má skjóta til velferðarnefndar Ísafjarðarbæjar.