Umhverfisstofnun, ásamt 22 samstarfsaðilum, hefur hlotið um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.
Af þessum styrk fær Ísafjarðarbær 327 milljónir til að bæta meðhöndlun fráveituvatns í Pollinum í Skutulsfirði og er Ísafjarðarbær næststærsti styrkþeginn í verkefninu.
Verkefninu er ætlað að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi og verður unnið á næstu sex árum.
Meðal markmiða er að:
- Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
- Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
- Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
- Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns
Sem fyrr segir snýr verkefnið í Ísafjarðarbæ að því að bæta meðhöndlun fráveituvatns í Pollinum í Skutulsfirði.
Ráðist verður í úrbætur á fráveitukerfi Ísafjarðar til að bæta vatnsgæði Pollsins en um 60% af fráveituvatni á Ísafirði, skólp frá um 1.800 íbúum, fer í Pollinn.