Samstaða var í bæjarstjórn um afgreiðslu fjárhagsáætlun fyrir næsta ár ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028, og framkvæmdaáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2025-2035. Allir níu bæjarfulltrúar samþykkti áætlunina.
Öll framboðin lögðu fram bókun við afgreiðsluna. Í listinn, sem er í meirihluta lagði áherslu á traustan rekstur og styrka stjórn:
Öll fjárhagsleg markmið hafa náðst
„Rekstur bæjarins er traustur, stjórnin styrk og þjónusta bæjarins heldur áfram að batna.
Afgangur af A-hluta verður 223 m.kr, og af A og B hluta samanlögðum verður hann 776 m.kr. Þetta gerist þrátt fyrir útgjaldaaukningu sem ætlað er að bæta lífsgæði íbúa enn meira. Frístundastyrkir, enn ríkari áhersla á menningarlíf og gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru meðal þeirra breytinga sem hafa áhrif á daglegt líf íbúa á næsta ári.
Við upphaf kjörtímabilsins var það okkar fyrsta verk að setja bænum metnaðarfull fjárhagsleg markmið. Þau sneru að tekjum, gjöldum, skuldahlutföllum og fleiru. Markmiðin hertust eftir því sem leið á tímabilið. Skemmst er frá því að segja að nær öll þessi markmið hafa náðst, og árið 2025 verður ekki undantekning.
Þar er að þakka blöndu af vestfirsku góðæri og styrkri fjármálastjórn. Tekjur bæjarins hafa hækkað með auknu útsvari og hærra fasteignamat eykur þær enn frekar. En við ætlum ekki að sofa á verðinum. Fasteignaskattsprósentan fyrir íbúa heldur áfram að lækka, og fer nú í 0,5% af fasteignamati en var 0,56% við upphaf kjörtímabilsins.“
Hærri rekstrarkostnaður veldur áhyggjum
Sjálfstæðismenn benda á í sinni bókun að tekjur hafi aukist verulega en að rekstrarkostnaður einnig og niðurstaðan versni milli ára og að það sé áhyggjuefni. Lögð er áhersla á lækkun fasteignaskattsins.
„Undanfarin ár hafa tekjur Ísafjarðarbæjar verið að aukast verulega eins og sjá má í rekstrarreikningi. Tekjur frá árinu 2023 hafa aukist um 1600 millj. Tekjuaukning auk aðhalds í rekstri eru nú að skila fjárhagsáætlun 2025 með jákvæðri rekstarniðurstöðu í A-hluta upp á 233 millj. og samstæðu A og B-hluta í 776 millj. Fjárfesting samstæðunnar er nú 980 millj. Fjárhagsleg markmið sem bæjarstjórn setti sér hafa haldið aga á fjármálum sveitarfélagsins og hjálpað til við halda rekstrinum góðum.
Við í Sjálfstæðisflokknum höfum barist fyrir því að hluti þess góða reksturs komi íbúum til góða og þökkum við Í-listanum fyrir að taka undir þau sjónarmið okkar með lækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði.
Þrátt fyrir að tekjur aukist milli áranna 2024 og 2025 um 400 millj. og vaxtagjöld og verðbætur lækki milli ára um 100 millj. þá er gert ráð fyrir verri rekstrarniðurstöðu. Þetta veldur okkur áhyggjum.
Í þessari fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að stöðugildum fjölgi um 12,6, þegar vel gengur þarf að huga enn betur að aðhaldi í rekstri. Því eins og við vitum þá þarf sterk bein til að þola góða daga.“
Frístundastyrkur og tækifæri í lækkun skatta
Framsóknarmenn benda einnig á vaxandi tekjur sveitarfélagsins og að þeir hafi gert í fyrra athugasemdir við hækkandi rekstrarkostnað, en ekki að þessu sinni. Tækifæri séu í því að lækka skatta og þeir leggja áherslu á upptöku frístundastyrks sem myndi bæta stöðu barnafólks.
„Með vaxandi tekjum og ákvörðun bæjarstjórnar um fjárhagsleg markmið er sveitarsjóður Ísafjarðarbæjar að braggast verulega eftir erfiða tíma í kringum heimsfaraldur 2020. Í fyrra voru merki um verulega vaxandi tekjur sveitarsjóðs en þá gerðum við í Framsókn athugasemdir um hækkandi rekstrarkostnað og þá sérstaklega launakostnað og aukningu á stöðugildum. Við gerum ekki athugasemdir við kostnaðarhækkanir í núverandi fjárhagsáætlun. Við vinnu fjárhagsáætlunar og við fyrstu umræðu kom í ljós að tækifæri voru í frekari skatta og kostnaðarlækkunum fyrir íbúa í sveitarfélaginu og studdum við lækkun fasteignagjalda. Við fyrri umræðu lögðum við í Framsókn fram tillögu um að setja á frístundastyrki fyrir börn í sveitarfélaginu og vorum við þar að horfa sérstaklega til að gera betur fyrir fjölskyldur. Í bókun Framsóknar við fyrri umræðu kom meðal annars eftirfarandi fram “ Í mörgum sveitarfélögum er veittur frístundastyrkur. Frístundaiðkun barna er kostnaðarsöm og myndi frístundastyrkur vera góð búbót til barnafjölskyldna í Ísafjarðarbæ. Einnig er þetta hvati til íþrótta og tómstundaþátttöku barna og unglinga og styrki grunn þess að öll börn geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Framsókn telur frístundakort gera sveitarfélagið enn samkeppnishæfara þegar kemur að búsetuákvörðun fjölskyldufólks. Bæjarstjórn tók vel í erindið og var ákveðið að setja í verkefnið 10 milljónir króna og er verið að vinna að reglum í kringum frístundastyrkinn. Framsókn þakkar fyrir góð viðbrögð við hugmynd um frístundastyrk. Einnig þakkar Framsókn góða og gegnsæja vinnu við fjárhagsáætlun. Við teljum bæjarstjórn vera á réttri leið og teljum við nú sem áður það ekki síst vera vegna góðrar samvinnu allra í bæjarstjórn. Framsókn stendur fyrir samvinnu, hófsemi og heiðarleika og endurspeglar fjárhagsáætlun og fjárhagsáætlunarvinna þau viðhorf.“