Innviðaráðuneyti: kjörnir fulltrúar eiga að tryggja starfshæfi sveitarstjórnar

Hólmavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Innviðaráðuneytið segir það ekki í þess höndum að tryggja starfshæfi veitarstjórnar. Það sé fyrst og fremst verkefni kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn. Tilefnið er að því er fram kemur í bréfi ráðuneytisins til Strandabyggðar að „til þess hafa leitað íbúar sveitarfélagsins, kjörnir fulltrúar og aðrir aðilar til að lýsa yfir áhyggjum af því að hætta sé á að ágreiningur og samskiptavandi sveitarstjórnarfulltrúa sveitarfélagsins kunni að leiða til þess að sveitarstjórn verði óstarfhæf og/eða hafi skaðleg áhrif á starfsemi sveitarfélagsins.“

Áréttar ráðuneytið að „þrátt fyrir að því sé falið með lögum að hafa eftirlit með einstaka ákvörðunum í stjórnsýslu sveitarfélaga á grundvelli XI kafla sveitarstjórnarlaga, þá hefur það ekki yfirstjórnunarvald yfir sveitarfélögum. Sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga er varinn í 78. gr. stjórnarskrárinnar og það er eingöngu í þeim tilvikum sem greiðslubyrði sveitarfélags er umfram greiðslugetu, sveitarstjórn vanrækir fjárhagslegar skyldur sínar ítrekað sbr. 86. gr. sveitarstjórnarlaga eða ef neyðarástand skapast í sveitarfélaginu sbr. 131.gr. laganna, sem ráðuneytið getur skipað sveitarfélaginu annað hvort fjárhaldsstjórn eða sérstaka neyðarstjórn til að tryggja starfsemi eða greiðslugetu sveitarfélagsins.“

Sé það því fyrst og fremst í höndum kjörinni fulltrúa að tryggja starfshæfi sveitarstjórnar.

Ráðuneytið segir þá skyldu hvíla á kjörnum fulltrúum að m að taka þátt í sveitarstjórn og að gegna starfi sínu af alúð og samviskusemi.

Ráðuneytið hvetur því alla kjörna fulltrúa til að huga að lögbundnum skyldum sínum og leita allra leiða til að forða því að ágreiningur og samskiptavandi sem kann að vera innan sveitarstjórnar, komi í veg fyrir málefnalega umræðu um hagsmuni sveitarfélagsins.

DEILA