Eins og í fyrra gefst íbúum í Vesturbyggð kostur á að senda inn tillögur að orði ársins á vefsíðu sveitarfélagsins og er frestur til þess til hádegis fimmtudaginn 19. desember.
Í kjölfarið verður kosið á milli valinna tillagna sem berast.
Orðið má vera af hvaða tagi sem er og getur til dæmis endurspeglað umræðu í bæjarmálum, í félagastarfsemi, í vina- og fjölskylduhópnum eða á vinnustaðnum. Leikurinn er til gamans gerður, tilnefningar eru nafnlausar og íbúar eru eindregið hvattir til að senda inn orð. Tilnefna má fleiri en eitt orð.
Orð ársins 2023 var sameining, en hin orðin sem komu til greina voru framkvæmdir, framtíð, laxalús, og samgöngur.