Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að með skipulagsbreytingunum sé verið að skerpa á faglegum og rekstrarlegum ábyrgðum innan stofnunarinnar.
„Skv. lögum um heilbrigðisþjónustu nr.40/2007 er kveðið á um fagstjórnendur heilbrigðisstofnanna, sem eru framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga. Þessir aðilar bera faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra.
Framkvæmdastjóri hjúkrunar er því faglegur yfirmaður Hjúkrunarstjóra á Patreksfirði og þegar kemur að lækningum er það framkvæmdastjóri lækninga. Eins og skipuritið var uppsett gat þetta valdið misskilningi.
Breytingin er því sú að við verðum ekki með sérstakan Hjúkrunarstjóra á Patreksfirði. En fjölgum millistjórnendum.“
Lúðvík segir að það sé mjög mikilvægt í heilbrigðisþjónustu að ábyrgðir séu skýrar og vald og ábyrgð fari saman. „Þannig að við erum að skerpa á góðum stjórnarháttum og þeir séu alltaf í samræmi við lög og reglur.“
„Engin breyting er á daglegri starfsemi og rekstri, sem er áfram stjórnað af okkar frábæra starfsfólki á Patreksfirði. Deildarstjórar á Patreksfirði sitja alla stjórnendafundi HVest og taka þátt í stefnumótun stofnunarinnar ásamt yfirverktakalækni á Patreksfirði. Nýr deildastjóri framkvæmda og rekstrar( sem við erum að auglýsa eftir) situr einnig í rekstrarstjórn HVest.
Framkvæmdastjórn HVest fundar mánaðarlega á Patreksfirði og fundar með starfsfólki.
Hér er ekki verið að draga á neinn hátt úr starfsemi á suðurfjörðum og síður en svo. Enda okkar skylda að halda úti öflugri heilbrigðisþjónustu í okkar umdæmi.
Okkar sýn er að styrkja enn fremur reksturinn og starfsemina á Patreksfirði og á suðurfjörðum. Nýtt skipurit sem tekur formlega gildi 01.01.2025 hefur verið kynnt fyrir ráðherra eins og lög gera ráð fyrir.“