Lagt hefur verið fram erindi til Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá Birni Davíðssyni f.h. óstofnaðs hlutafélags um gagnaver í Breiðadal, dags. 17. október 2024 með hugmyndir að byggingu gagnavers í Veðrarárdal í Önundarfirði.
Gert er ráð fyrir byggingu gagnaversins í áföngum. Því er frekar gert ráð fyrir fleiri smærri byggingum en fáum stórum.
Byggingamagnið yrði í um 900 fermetra húsum sem hver um sig nýtir um 1-3 MW af rafmagni til starfseminnar. Í byrjun væri gert ráð fyrir allt að 7 byggingum fyrir gagnaverið auk einnar byggingar í árdal Breiðadalsár sem væri til nýtingar glatvarma auk fiskeldistjarna. Í framtíðinni væri síðan möguleiki á að bæta við sex byggingum með því að stækka skipulagssvæðið inn á tún sem er næst svæðinu að norðanverðu.
Þá segir að ekki hafi verið metið hvort heppilegra væri að koma fyrir varaaflsstöðvum sem nýta jarðaefnaeldsneyti eða rafhlöðustöflum sem varaafli. „Hröð þróun er í rafhlöðustöflum um þessar mundir og kostnaður við þá að lækka. Væru reistir rafhlöðustaflar mætti hugsa sér samlegð við starfsemi Landsnets að því leyti að þeir gætu leyst straumleysisástand í stutta stund þegar rafmagn fer af Vesturlínu þar til varaaflstöðvar í Bolungarvíkur eru ræstar.“
Jafnframt er gert ráð fyrir að sjálfrennandi vatn verði tekið úr Breiðadalsá til notkunar í kælikerfi. Kælikerfi verður tvöfalt, þ.e. með vatni og úr lofti. Er það til að tryggja rekstraröryggi og gera kleift að slökkva á kerfum til viðhalds og endurbóta án þess að raska starfsemi að öðru leyti.
Fram kemur að fullbyggt gagnaver gæti þurft 20 – 28 MW af raforku og að gagnaverið myndi kalla á frekari aðgerðir í raforkumálum sem myndu nýtast til að auka orkuöryggi á norðanverðum Vestfjörðum.
Skipulags- og mannvirkjanefnd óskaði eftir undirritaðri heimild landeigenda þar sem þeir heimila breytingar.