Matvælastofnun vill minna fólk á að flugeldar geta valdið dýrum miklum ótta og jafnvel ofsahræðslu.
Fólk er eindregið hvatt til að takmarka notkun flugelda við gamlárskvöld og þrettándann, og alls ekki skjóta upp utan leyfilegs tíma.
Dýraeigendur þurfa að gera ráðstafanir til að draga úr hættu á að dýrin þeirra verði hrædd eða slasist.
Hundaeigendur ættu alltaf að hafa hundana í taumi þegar farið er með þá út í þéttbýli eða í nálægð þéttbýlis þessa daga. Þetta á líka við þótt bara sé farið með þá út í garð. Rólegustu hundar geta skyndilega orðið svo hræddir að þeir hlaupa blint í burtu og geta þá farið sér að voða, t.d. lent fyrir bíl eða orðið fyrir annars konar slysum.
Mörg sorgleg dæmi eru um að hundar hafi týnst vegna hræðslu við flugelda og sumir jafnvel aldrei fundist aftur.
Nokkur góð ráð fyrir dýraeigendur á þessu tímabili:
- Haldið köttum alveg inni.
- Farið í góðan göngutúr með hundana snemma dags, helst utan þéttbýlis.
- Ekki skilja dýrin ein eftir.
- Veitið dýrunum jákvæða athygli og góða umönnun.
- Lokið gluggum, dragið gluggatjöld fyrir og hafið ljós kveikt.
- Best er fyrir dýrin að vera á stað sem þau þekkja.
- Ekki taka dýrin með á brennur eða í annan gleðskap utandyra.
- Hafið samband við dýralækni ef þið teljið nauðsynlegt að fá róandi lyf fyrir gæludýrin.
- Hestum á húsi skal gefið vel, hafa ljósin kveikt og jafnvel útvarp í gangi.
- Best er að hestar á útigangi séu á svæði sem þeir þekkja og að þeim sé gefið hey.