Fjórir Vestfirðingar kosnir í Norðvesturkjördæmi

Úrslit alþigiskosninganna í Norðvesturkjördæmi. Heimild: Morgunblaðið.

Af sjö alþingismönnum Norðvesturkjördæmis, sem kosnir voru í alþingiskosningunum á laugardaginn, eru fjórir með lögheimili á Vestfjörðum. Það eru báðir þingmenn Flokks fólksins, Eyjólfur Ármannsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir auk Maríu Rut Kristinsdóttur frá Viðreisn og Örnu Láru Jónsdóttir Samfylkingu.

Eyjólfur er með lögheimili á Hrafnabjörgum í Lokinhamradal í Arnarfirði, þar sem móðir hans er fædd og uppalin, Lilja Rafney er Súgfirðingur, María Rut Flateyringur og Arna Lára Ísfirðingur og eru þær þrjár allar með lögheimili sitt í heimabyggð.

Einn þingmannanna er Skagfirðingur, Stefán Vagn Stefánsson og tveir af Vesturlandi, annar frá Akranesi, Ólafur Adolfsson og hinn frá Borgarfirði, Ingibjörg Davíðsdóttir.

Úrslitin urðu í takt við spár kannanna, sex flokkar fengu hver sitt þingsætið og auk þess féll jöfnunarsætið í hlut Flokks fólksins. Sjálfstæðisflokkurinn fékk flest atkvæði en Flokkur fólksins kom þar skammt þar á eftir.

Alls voru greidd 18.398 atkvæði í kjördæminu og kjörsókn var 82,3%. Að frátöldum auðum og ógildum voru atkvæðin 18.075.

DEILA