Fjölgun íbúa í Árneshreppi

Krossneslaug í Norðurfirði.

Íbúum í Árneshreppi, sem til skamms tíma var fámennasta sveitarfélag landsins, hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum. Þegar fæst var voru íbúar hreppsins 42 fyrir um 7 árum en eru nú orðnir 61. Þetta telst vera fjölgun upp á 45% og sennilega ekkert sveitarfélag á landinu sem getur státað af slíkri fjölgun íbúa. 

Sveitarfélagið tók þátt í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, og lauk því um síðustu áramót. Verkefnið þykir hafa tekist mjög vel og hefur orðið mikil uppbygging í sveitarfélaginu. Skólastarf hófst á ný í Finnbogastaðaskóla í haust en það hefur legið niðri síðan 2018. Það eru að vísu ekki nema tveir nemendur í skólanum en hann er rekinn sem skólasel frá Drangsnesskóla og er gott samstarf þar á milli.
Talsvert hefur verið byggt af nýjum húsum í Árneshreppi. Unnið var deiliskipulag með 5 nýjum lóðum og seldust þær allar á svipstundu. Mörg hús er verið að gera upp og er talsverð eftirspurn eftir húsnæði.

Gert var átak í því að leggja þriggja fasa rafstreng um allt sveitarfélagið og er það verkefni að klárast. Í því verkefni var plægður niður jarðstrengur yfir Trékyllisheiði, en þar var hvað hættast við því að loftlínur slitnuðu. Sú hætta er nú úr sögunni og þurfa íbúar ekki lengur að óttast rafmagnsleysi þegar veður gerast válynd. Í sömu atrennu var lagður ljósleiðari um nær allt sveitarfélagið og öll fjarskiptatækni færð til nútímahorfs.

Í Krossneslaug, sem margir telja með skemmtilegustu sundlaugum landsins, var haldið upp á 70 ára afmæli laugarinnar. Fjöldi fólks kom og rifjaði upp skemmtilegar minningar úr lauginni. Í tilefni afmælisins voru heitir pottar og öll búningsaðstaða endurnýjuð og er öll sú uppbygging til fyrirmyndar.

Í Djúpavík var opnuð sýningin 1615, sem fjallar um Spánverjavígin svokölluðu sem urðu það ár, þegar Ari sýslumaður í Ögri elti uppi og drap fjölda baskneskra skipbrotsmanna. Þetta er af mörgum talinn einn svartasti bletturinn á sögu þjóðarinnar. Sýningin hefur hlotið einróma lof gesta og hefur verið efnt til gjöfuls samstarfs við baskneskt lista- og fræðafólk í tengslum við hana. Baskasetur Íslands stendur að sýningunni.

Höfnin í Norðurfirði hefur verið vinsæll ferðamannastaður. Hún fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hefur nú tekið algjörum stakkaskiptum. Hafnarsvæðið var endurhannað með tilliti til öryggis ferðamanna, byggður útsýnispallur, rými til að borða nestið sitt og sett skýr skil á milli þeirra svæða sem ferðamenn hafa aðgang að og þeim svæðum sem fiskvinnsla fer fram á.

Arinbjörn Bernharðsson

Baskasetrið í Djúpavík.

Ljósmyndir: Skúli Gautason

DEILA