Í gær afgreiddi bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fjárhagsáætlun næsta árs. Afgangur af A-hluta verður 223 m.kr, og af A og B hluta samanlögðum verður hann 776 m.kr. Þetta gerist þrátt fyrir útgjaldaaukningu sem ætlað er að bæta lífsgæði íbúa enn meira. Frístundastyrkir, enn ríkari áhersla á menningarlíf og gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru meðal þeirra breytinga sem hafa áhrif á daglegt líf íbúa á næsta ári.
Við upphaf kjörtímabilsins var það okkar fyrsta verk að setja bænum metnaðarfull fjárhagsleg markmið. Þau sneru að tekjum, gjöldum, skuldahlutföllum og fleiru. Markmiðin hertust eftir því sem leið á tímabilið. Skemmst er frá því að segja að nær öll þessi markmið hafa náðst, og árið 2025 verður ekki undantekning.
Þar er að þakka blöndu af vestfirsku góðæri og styrkri fjármálastjórn. Tekjur bæjarins hafa hækkað með auknu útsvari og hærra fasteignamat eykur þær enn frekar. En við ætlum ekki að sofa á verðinum. Fasteignaskattsprósentan fyrir íbúa heldur áfram að lækka, og fer nú í 0,5% af fasteignamati en var 0,56% við upphaf kjörtímabilsins.
Við þökkum starfsfólki bæjarins, fráfarandi bæjarstjóra og minnihlutanum í bæjarstjórn kærlega fyrir gott samstarf við undirbúning áætlunarinnar.
Of langt mál er að rekja allar fréttir og breytingar, en ég bendi á samantekt Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra, greinargerð og glærukynningu sem gefa góða innsýn inn í helstu þætti áætlunarinnar.
Rekstur bæjarins er traustur, stjórnin styrk og þjónusta bæjarins heldur áfram að batna.
Gylfi Ólafsson
oddviti Í-listans