Fiskeldi: Stefnir í yfir 50 milljarða króna – metár

Í nýju fréttabréfi Radarsins, mælaborði sjávarútvegsins, kemur fram að á fyrstu ellefu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti orðið eldisafurða 47,9 milljarðar króna, sem er 12,1% aukning frá sama tímabili í fyrra. Það er jóst að stefnir í metár og jafnframt eru horfur á að verðmæti eldisafurða fari í fyrsta sinn yfir 50 milljarða króna. Fyrra met er frá árinu 2022 þegar útflutningsverðmæti nam tæpum 49 milljörðum króna.

Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í nóvember sem birtar voru í síðustu viku. Þar er einungis birt útflutningsverðmæti eldisafurða í heild og því liggur ekki fyrir sundurliðun niður á einstaka tegund í nóvember.

50 þúsund tonna múrinn brotinn á næsta ári

Vöxtur fiskeldis á Íslandi hefur verið markviss síðustu ár. Laxeldi er nú, eins og sjá má á myndinni hér að ofan, langstærsti liðurinn í útflutningi á eldisafurðum. Allar líkur eru á að hlutdeild þess aukist enn frekar á komandi árum. Aukin framleiðsla í sjókvíaeldi og metnaðarfull áform um stórfellda uppbyggingu á landeldi munu áfram styrkja stöðu íslensks fiskeldis og styðja við efnahagslega hagsæld á Íslandi.

Samkvæmt gögnum Matvælastofnunar má gera ráð fyrir að framleiðsla upp úr sjó á næsta ári verði um 55 þúsund tonn.  Til samanburðar hefur framleiðslan undanfarin þrjú ár verið í kringum 45 þúsund tonn. Á næstu árum má jafnframt búast við umtalsverðri aukningu í landeldi. Metárið 2024 mun því að öllum líkindum aðeins bera titilinn um sinn.

DEILA