Á gamlársdag árið 1944 komu tíu iðnaðarmenn saman á Ísafirði og stofnuðu Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði. Í lögum félagins stóð: „Tilgangur félagsins er að sameina alla starfandi járniðnaðarmenn á Ísafirði og nágrenni, til þess, með öflugu samstarfi, að beita sjer fyrir bættum vinnuskilyrðum, hækkun kaupgjalds, styttum vinnutíma og auknum rjettindum.“ Flestir stofnfélaga voru vélvirkjar sem störfuðu við vélsmiðjur í bænum, en þar voru líka tveir járnsmiðir og tveir pípulagningamenn. Helsta ástæðan fyrir stofnun félagins var sú að nokkru áður eignuðust stærstu útgerðarfélög bæjarins Vélsmiðjuna Þór, sem var stærsti atvinnurekandi í járniðnaði í bænum. Áður hafði vélsmiðjan verið í eigu iðnaðarmanna, sem nú urðu launamenn en ekki eigendur.
Skilyrði til inngöngu í félagið var bundið við sveina í járniðnaði. Í lögunum sagði: „Rjett til upptöku í félagið hefur hver sá, er vinnur að járniðnaði, og hefur til þess full rjettindi samkvæmt lögum, enda beri hverjum járniðnaðarmanni skylda til þess að ganga í félagið þegar hann hefur uppfyllt áður nefn(t) skilyrði.“ Frá þessu var mikilvæg undantekning, vegna þess að félagið var stéttarfélag. Þeir járniðnaðarmenn sem „hafa á hendi sjálfstæða verkstæðisstjórn“ gátu ekki orðið félagar. Það voru verkstæðiseigendur með menn í vinnu og þeir sem sinntu eingöngu verkstjórn.
Á stofnfundinum var kosin fyrsta stjórn félagsins. Benóný Baldvinsson vélvirki var formaður, varaformaður var Ingimundur Guðmundsson vélvirki, ritari Guðbrandur Kristinsson pípulagningamaður, vararitari Sigurleifur Jóhannsson járnsmiður og gjaldkeri Guðfinnur Sigmundsson vélvirki. Allir þessi menn settu svip sinn á atvinnulíf bæjarins um miðja síðustu öld og tengdust upphafi véla og vélsmiðja í landinu.
Vélar og verkstæði
Ísafjarðarkaupstaður dafnaði hratt með tilkomu skútuútgerðar og saltfiskverslunar eftir miðja 19. öld. Iðnaðarmönnum í bænum fjölgaði og árið 1888 stofnuðu þeir Iðnaðarmannafélag Ísafjarðar. Iðnaðarmannafélagið stofnaði kvöldskóla iðnaðarmanna árið 1905, sem var annar elsti iðnskóli á landinu. Þannig er löng hefð fyrir því að iðnaðarmenn geti orðið fullnuma í iðn sinni á Ísafirði.
Vestfirðingar kynntust vélum á undan öðrum landsmönnum. Um og fyrir 1890 komu norskir hvalveiðimenn og byggðu átta hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum, þar af fimm við Ísafjarðardjúp. Hvalstöðvarnar fluttu með sér járnsmiði og vélsmiði frá Noregi og Svíþjóð til að sinna viðhaldi og viðgerðum á gufuvélum hvalveiðiskipanna og vélum sem settar voru upp á stasjónunum í landi. Margir Vestfirðingar fengu vinnu í hvalnum og kynntust þar gufuaflinu. Það má ímynda sér upplitið á ungum piltum sem þekktu ekki annað en orfið og árina, þegar þeir sáu í fyrsta sinn öxul, sveifarás, spil og reimar sem drógu hvalina upp á skurðarplanið eða hífðu stór spikstykki og bein upp í suðukatlana í hvalstöðvunum.
Þekking norsku vélsmiðanna skilaði sér áfram. Þannig lærði Ingimundur Guðmundsson fyrsti varaformaður Félags járniðnaðaarmanna hjá Jens Peter Clausen í Hnífsdal. Jens Peter kom hingað frá Noregi til að starfa við hvalveiðistöðina á Dvergasteini í Álftafirði, rak síðar mótorverkstæði bæði á Ísafirði og í Hnífsdal á árunum 1907-1916 og fluttist loks til Önundarfjarðar og starfaði við bræðsluna á Sólbakka.
Ísafjörður var vagga vélbátabyltingarinnar, þegar fyrsta vélin var sett í sexæringinn Stanley árið 1902. Um leið kom til bæjarins fyrsti vélvirkinn, ungur drengur frá Esbjerg í Danmörku, sem fylgdi Möllerup-vélinni sem sett var í bátinn. Hann hét Jens H. Jessen og stofnaði síðar fyrstu vélsmiðjuna í bænum. Vélsmiðja J. H. Jessen tók fjölda lærlinga sem stunduðu bæði vélstjórn á bátum og skipum eða vélsmíði á verkstæðum. Einn þeirra sem lærði þar var Benóný Baldvinsson, fyrsti formaður Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði. Hann var fæddur á Ísafirði árið 1908 og hóf nám í vélvirkjun árið 1927, fór þaðan í vélstjórnarnám og útskrifaðist frá Vélskólanum í Reykjavík árið 1931. Benóný var um tíma vélatjóri á togurum og línuveiðurum, en starfaði lengst af hjá Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði. Síðar starfrækti hann vélsmiðju ásamt Magnúsi bróður sínum í bakhúsi við Fjarðarstræti 47. Benóný lést á Ísafirði árið 1965.
Vélsmiðjan Þór var helsta vélsmiðja bæjarins í marga áratugi. Smiðjan stóð fyrst á Hæstakaupstaðarlóðinni þar sem nú er Fjarðarstræti. Árið 1942 komst fyrirtækið í eigu helstu útgerðarfélaga á Ísafirði. Árið 1946 flutti Þór í stórt og glæsilegt verkstæðis- og skrifstofuhúsnæði við Mjósundin. Skipasmíðastöð Marzellíusar Bernharðssonar var annar helsti vinnustaður járniðnaðarmanna. Marzellíus starfrækti dráttarbraut í Suðurtanga og tók jafnframt yfir gömlu dráttarbrautina á Torfnesi, sem Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur stofnaði árið 1921. Járnsmiðir, vélsmiðir og eldsmiðir störfuðu við skipasmíðastöðina, jafnvel þó að skipin væru eikarbátar. Vélsmiðjan Þór og Skipasmíðastöð Marzellíusar Bernharðssonar voru stærstu vinnustaðir járniðnaðarmanna á Ísafirði þegar Félag járniðnaðarmanna var stofnað.
Fyrstu samningarnir
Strax eftir stofnun Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði hófust viðræður við atvinnurekendur um kjarasamning. Samningar Félags járniðnaðarmanna í Reykjavík voru lagðir til grundvallar. Samningar tókust greiðlega við Vélsmiðjuna Þór hf., en Marzellíus Bernharðsson neitaði að undirrita samning við félagið á þeirri forsendu að hann ræki ekki fyrirtæki í járniðnaði. Það breyttist þó síðar.
Fyrstu samningar félagsins voru undirritaðir 15. janúar 1945. Benóný Baldvinsson, Sigurleifur Jóhannsson og Guðfinnur Sigmundsson undirrituðu samninginn fyrir hönd járniðnaðarmanna og Ólafur Guðmundsson framkvæmdastjóri fyrir Vélsmiðjuna Þór hf. Grunnkaup sveina var 158 krónur á viku og skyldi hækka með vísitölu. Tímakaupið var 3,30 krónur. Vinna í kötlum og skipstönkum skyldi borga með 10% álagi. „Eigi hefir sveinn kröfu til launa fyrir þær vinnustundir, eða hluta úr vinnustundum, sem hann eigi mætir til vinnu sinnar“, segir í annarri grein samningsins.
Vinnuvikan var 48 tímar, frá 7.30 til 17.00 virka daga, nema mánudaga 7.30 til 18.00 og laugardaga 7.30 til 12.00. Á veturna mátti láta vinna 8 tíma á dag 5 daga vikunnar. Matartími var frá 12-13 og kvöldmatartími klukkan 19, ef unnið var lengur á kvöldin. Þá var gert ráð fyrir tveimur 15 mínútna kaffitímum á dag, á launum. Eftirvinna var frá 17 til 21 með 50% álagi og næturvinna eftir klukkan 21 og eftir 12 á laugardögum með 100% álagi á dagvinnutaxta. Dagvinna var til klukkan 12 á aðfangadag og á gamlársdag. Eftir eins árs vinnu áttu sveinar rétt á tveggja vikna sumarfríi með fullum launum.
Starf Járniðnaðarmannafélagsins snerist fyrst og fremst um samninga við Vélsmiðjuna Þór og aðrar vélsmiðjur í bænum og svo við Skipasmíðastöð Marzellíusar Bernharðssonar. Félagið sigldi oftast lygnan sjó með því að samningar járniðnaðarmanna í Reykjavík voru hafðir að fyrirmynd félagsins á Ísafirði.
Atvinnuástand var gott árið 1944 þega félagið var stofnað, en góðæri stríðsáranna og bjartsýni eftirstríðsáranna með endurnýjun báta- og togaraflotans tók fljótlega enda. Versnandi viðskiptakjör og minnkandi þorksafli gerðu útgerðinni erfitt um vik og þá lenti Vélsmiðjan Þór í erfiðleikum með að standa skil á launum starfsmanna. Haustið 1950 komu járniðnaðarmenn saman á fund og kröfðust þess að vélsmiðjan stæði við launagreiðslur. Í svari forstjóra Þórs kom fram að fyrirtækið ætti við fjárhagserfiðleika að etja og fór hann fram á að starfsmenn sýndu þolinmæði, á meðan komist yrði yfir örðugasta hjallann. Járniðnaðarmenn hótuðu að leggja niður vinnu, ef ekki yrði staðið við launagreiðslur, en hættu við það gegn loforði fyrirtækisins um reglulegar útborganir og greiðslu áfallinna launa. Erfiðleikar vélsmiðjunnar voru ekki á enda því veturinn 1951 var samþykkt breytt vinnutilhögun vegna lítillar vinnu, þannig að unnið var í tveim flokkum, sitt hvora vikuna. Fyrri loforð um greiðslu vinnulauna voru ekki efnd fyrr en komið var fram á sumar og útistandandi launaskuld var greidd í tveimur greiðslum í júní og júlí 1951. Þannig lauk þessum erfiða vetri og vikulegar útborganir á miðvikudögum tóku aftur gildi.
Fyrsta áratuginn var enginn sjúkrasjóður fyrir félagsmenn en styrkir vegna veikinda voru einstöku sinnum veittir úr félagssjóði. Það var ekki fyrr en á aðalfundi 1955 sem Guðmundur B. Jónsson hóf umræður um stofnun sjúkrasjóðs við félagið. Gunnar Örn Gunnarsson rennismiður var kosinn formaður undirbúningsnefndar. Um leið var félagsgjaldið hækkað úr 3 krónum í 5 krónur á viku. Strax á næsta fundi haustið 1955 var samþykkt reglugerð fyrir Slysa- og sjúkrasjóð Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði. Stofnframlag félagsins í sjóðinn var ákveðið 6.000 krónur og að helmingur af tekjum félagsins rynnu í sjóðinn.
Sjúkrasjóður átti að tryggja félagsmönnum lágmarkslaun í allt að 10 vikur, eftir að samningsbundnum greiðslum frá atvinnurekanda lauk. Árið 1955 voru það 182 krónur á viku fyrir einhleyping. Síðar var hlutfall félagsgjalda sem rann í sjúkrasjóð lækkað og loks fellt niður með lagabreytingu árið 1961, enda komu þá til greiðslur atvinnurekenda í sjúkrasjóði verkalýðsfélaga.
Á sjötta áratugnum voru erfiðleikar í sjávarútvegi og lítil vinna hjá smiðjunum. Margir járniðnaðarmenn fóru þá tímabundið til vinnu suður á Keflavíkurflugvöll. Um og eftir 1955 batnaði staðan og hefðbundin vinna við viðhald véla og búnaðar í stækkandi bátaflota jókst. Við það bættist vinna við framkvæmdir á vegum bandaríska hersins við byggingu ratsjárstöðvar á Straumnesfjalli við Aðalvík.
Inn í Alþýðusambandið
Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði stóð utan heildarsamtaka launafólks fyrsta áratuginn sem það starfaði. Á aðalfundi félagsins í desember 1954 vakti Valdimar S. Jónsson máls á því að félagið ætti gerast aðili að Alþýðusambandi Íslands. En ekki var neitt verið að rjúka til, því tveim árum síðar sendi Jóhannes Þorsteinsson starfandi formaður fyrirspurn til ASÍ ásamt lögum félagsins og nafnaskrá. Þar kom fram að félagsmenn væru 20 talsins, 8 vélsmiðir, 5 járnsmiðir, 4 rennismiðir og 2 bifvélavirkjar, auk eins heiðursfélaga. Það var loks á aðalfundi félagsins 1957 þegar Sigurður Th. Ingvarsson rennismiður var kosinn formaður að hann lagði til að umsókn félagsins um aðild að Alþýðusambandi Íslands yrði „endurnýjuð“ einsog það var orðað í fundargerð. Var það einróma samþykkt. Fimm árum síðar, árið 1962, gerðust járniðnaðarmenn aðilar að Alþýðusambandi Vestfjarða. Það ár varð Pétur Sigurðsson kosinn formaður félagsins og markaði það upphafið af löngum ferli hans í forystu verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum.
Sumarbústaður í Tunguskógi og í Heydal
Félagsmenn Járniðnaðarmannafélagsins voru tregir til að samþykkja hækkun á félagsgjöldum. Tillögur stjórnarinnar um hækkun árgjalds voru ítrekað felldar á aðalfundum. Árið 1962 sýndi ársreikningurinn halla að upphæð 2427 krónur. Þá var loks samþykkt að hækka gjaldið úr 10 í 15 krónur á viku. Helstu útgjöld félagsins voru skattgreiðslur til ASÍ og ASV, kostnaður við þátttöku á þingi ASÍ og kaup á ritvél fyrir félagið.
Á þessum árum kom fram hugmynd um að félagið eignaðist orlofshús, eða sumarbústað, í nágrenni bæjarins. Aðalfundur ársins 1965 fól stjórninni að athuga málið. Um sumarið gafst félaginu kostur á að kaupa sumarbústað í Tungudal inn af Ísafirði fyrir 70 þúsund krónur. Skiptar skoðanir voru um málið og var ákveðið að viðhafa leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu til að útkljá það. Náðist til allra félagsmanna nema eins, sem ekki var í bænum. Voru kaupin samþykkt með 9 atkvæðum gegn 6. Járniðnaðarmenn nýttu sumarbústaðinn í Tunguskógi vel fyrstu árin, en síðar minnkaði áhuginn og félagið seldi húsið. Í staðinn voru fest kaup á sumarbústað í Heydal í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi, sem félagið átti í áratug. Síðustu ár hafa járniðnaðarmenn átt aðild að orlofssjóði og orlofsíbúðum í samstarfi við Verkalýðsfélag Vestfirðinga.
Breskir togarar og ísfirsk stálskip
Vélsmiðjan Þór var lengi eitt stærsta iðnfyrirtæki á Ísafirði. Um 1960 störfuðu þar um 30 manns á vélaverkstæði, í málmsteypu og plötusmiðju, auk vinnu á lager og skrifstofu. Vinnan fólst að mestu í viðgerðum og smíði fyrir útgerð og fiskvinnslu á Ísafirði og nágrenni. Við vélaviðgerðir í bátum og togurum og við niðursetningar á vélum og spilum í báta. Vinna var mikil í breskum togurum á sjötta og sjöunda áratugnum, allt upp í á annað hundrað skip á ári. Stundum voru fimm til sex skip í einu í Ísafjarðarhöfn til viðgerðar. Samskiptin við „tjallana“ voru yfirleitt góð, en þó gat brugðið út af því og togarakarlarnir reyndu jafnvel að villa um fyrir iðnaðarmönnum til að tefja fyrir viðgerðum, til að lengja hafnarfríið.
Um 1960 er tekið að flytja til landsins stálskip til fiskveiða og mikil endurnýjun átti sér stað á fiskiskipaflotanum. Skipasmíðastöðin færði út kvíarnar með nýrri dráttarbraut neðst á Suðurtanga, verkstæði og smiðju og stóru skipanausti undir þaki, þar sem hægt var að byggja allt upp í 300 tonna stálskip. Með þessum framkvæmdum var komin fullkomin aðstaða til skipaviðgerða og stálskipasmíða í Suðurtanga. Fyrsta stálskipið sem rann af stokkunum í Skipasmíðastöð Marzellíusar Bernharðssonar á Ísafirði var Kofri ÍS, 180 brúttótonn að stærð, smíðaður fyrir Súðvíkinga árið 1969.
Með stálskipasmíðinni fjölgaði starfsmönnum stöðvarinnar, járnsmíðin var mannfrek og sett var upp vélaverkstæði og renniverkstæði. Nýir iðnaðarmenn voru ráðnir til starfa og sumir fluttu sig úr Þór og niður í Neðsta. Á þeim tíma voru starfsmenn fyrirtækisins um 60 talsins og fjöldi nema í járniðnaði hóf þar sinn feril.
Félögum fjölgar með öflugu atvinnulífi
Með nýjum og stærri fiskiskipum, sókn breskra togara á Íslandsmið og ekki síst smíði stálskipa í Skipasmíðastöð M. Bernharðssonar fjölgaði í stétt járniðnaðarmanna á Ísafirði og félagsmönnum fjölgaði. Árið 1969 foru fjórir nýir teknir inn í félagið og árið eftir fjölgaði félagsmönnum úr 19 í 23, samkvæmt skýrslu félagsins til ASÍ.
Kjarasamningar voru í uppnámi árin 1969-1970 í kjölfar efnahagserfiðleika vegna lækkandi útflutningsverðs frystra fiskafurða og hruni í síldveiðum. Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði gerðist aðili að Málm- og skipasmiðasambandi Íslands árið 1969 til að styrkja stöðu sína. Kjarasamningar voru lausir og járniðnaðarmenn á Ísafirði ræddu sérkröfur sínar á félagsfundi. Lengra orlof fyrir eldri starfsmenn, 22 dagar eftir 10 ára starf og 24 dagar eftir 20 ára starf. Þá vildu menn að 10% álag fyrir óþrifavinnu kæmi jafnt á allt kaup. Atvinnurekendur höfnuðu sérkröfum félagsins, en vildu halda sig við Reykjavíkursamninga óbreytta. Ekki vildu félagsmenn sætta sig við það umræðulaust og bættu nú við kröfu um að í sumarfríum væri vinnuvikan talin 5 dagar og laugardagarnir ekki taldir með. Öllum sérkröfum járniðnaðarmanna var hafnað og því þurftu félagsmenn að ákveða hvort þeir vildu fylgja þeim eftir með verkfalli. Tillaga um vinnustöðvun var felld með sjö atkvæðum, en fimm voru með. Reykjavíkursamningarnir voru látnir gilda.
Með samningunum 1969 var komið á fót lífeyrissjóðum fyrir allt launafólk í landinu. Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði ákvað að ganga til samstarfs við önnur verkalýðsfélög á svæðinu um stofnun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga.
Járniðnaðarmenn settu á næturvinnubann vorið 1970. Vélsmiðjurnar voru vanar að láta menn vinna öllum stundum við viðgerðir á bátum og togurum, sem leituðu viðgerða þegar bilirí varð. Tafir frá veiðum voru dýrar og því var reynt að sinna nauðsynlegum viðgerðum strax og skipin komu í höfn og unnið á meðan þurfti til að koma þeim aftur á veiðar. Sérstaklega átti þetta við um viðgerðir á breskum eða þýskum togurum, sem leituðu inn á Ísafjörð til viðgerða á þessum árum. Öllum tilslökunum á banni við yfirvinnu var hafnað, þrátt fyrir mikinn þrýsting frá smiðjunum. Nýr kjarasamningur var samþykktur þar sem dagvinnutíminn var styttur í 42 stundir á viku, frá 7.30 til 17.00 fimm daga vikunnar, með matarhléi 12-13 og tveimur 15 mínútna kaffitímum klukkan 9.45 og 15.15. Næturvinnubannið var áfram í gildi út sumarið.
Umræður um stækkun félagssvæðisins komu upp með reglulegu millibili í Félagi járniðnaðarmanna. Var horft til Bolungarvíkur um tíma, þar sem var starfandi vélsmiðja með allt að tug járniðnaðarmanna. Önnur vélsmiðja sem stóð á gömlum grunni var Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri. Fjórir járniðnaðarmennn á Þingeyri gengu í félagið árið 1970, þeirra á meðal Kristján Gunnarsson. Á næsta aðalfundi félagsins var ákvæði um félagssvæði breytt, þannig að það náði yfir alla Vestfirði. Fram til þessa hefur þó stærsti hluti félagsmanna ætíð starfað á Ísafirði.
Á árunum 1980-1990 fjölgaði félagsmönnum úr 25 í 50. Með nýjum og öflugum framleiðslufyrirtækjum í málmiðnaði fjölgaði í stétt járniðnaðarmanna. Pólstækni, 3X-stál, síðar Skaginn-3X, voru öflug iðnfyrirtæki í bænum fyrir og eftir síðustu aldamót. En sviptingar hafa orðið í þessari grein. Starfsemi Pólstækni var lögð niður eftir að félagið rann inn í Marel og eftir að Skaginn-3X komst í eigu erlendra aðila, leið ekki á löngu þar til fyrirtækinu var lokað fyrir ári síðan. Ný járniðnaðarfyrirtæki voru stofnuð á grunni þeirra eldri til að sinna viðhaldi og nýsmíði fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Þannig helst verkþekking og atvinna járniðnaðarmanna áfram á Ísafirði.
Líkt og áður hefur Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði verið samstíga öðrum félögum Samiðnar og ASÍ í kjarasamningum. Undantekning frá því var þegar félagsmenn felldu kjarasamninga árið 2018, einir allra á landinu, vegna ákvæða um breytingar á dagvinnutíma. Fékk félagið í gegn sérákvæði um vinnutíma, sem gilti næstu árin.
Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði mun halda áfram að berjast fyrir réttindum félagsmanna sinna hér líkt og það hefur gert frá árinu 1944, eða í 80 ár. Núverandi formaður félagsins er Ragnar Högni Guðmundsson og aðrir stjórnarmenn eru Steinn Daníel Þrastarson, Ragnar Ingi Kristjánsson, Halldór Ingi Magnússon, Heiðar Ingi Marinósson, Stefán Línberg Halldórsson og Sigurður Viðarsson.
Samantekt: Sigurður Pétursson sagnfræðingur.
Heimild: Vindur í seglum III. Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum 3. bindi. Ísafjörður og Ísafjarðardjúp 1931-1970. Ísafirði 2015.