Sjóferðir á Ísafirði hafa sent erindi til Ísafjarðarbæjar, Vegagerðarinnar og lögreglustjórans á Vestfjörðum þar sem fyrirtækið býðst til þess að vera með fastar áætlunarsiglingar milli byggðakjarna við Djúp í þeim tilvikum að vegir lokast eins og gert hefur að undanförnu.
Þá yrði tilkynnt um siglingarnar samhliða lokun vega. “ Það er sennilega minna umstang að kalla út bát með tveimur í áhöfn en að opna fjöldahjálparstöðvar, sérstaklega ef lokunarástand stendur í langan tíma.“ segir í erindinu. Sjóferðir hafa ávallt hluta báta sinna á haffæri allan veturinn og er tilbúið í skyndiverkefni á hvaða tíma sem er.
Tilefnið er að þann 12. nóvember lokaðist Eyrarhlíðin og Hraðfrystihúsið Gunnvör fékk Sjóferðir til þess að ferja starfsmenn milli Ísafjarðar og Bolungavíkur. Áður hafa verið farnar sambærilegar ferðir þegar snjóflóð hafa fallið á Súðavíkurhlíð.
Erindið var lagt fram í bæjarráði sem vísaði því til sameiginlegrar almannavarnarnefndar Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps til afgreiðslu.