Bíldudalur: 1000 metra varnargarður ofan byggðarinnar

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar hefur samþykkt tillögu að deiliskipulagi ofanflóðvarna á Bíldudal og leggur til við heimastjórn Arnarfjarðar að tillagan verði auglýst.

Deiliskipulagssvæðið er um 12,9 ha að stærð og nær yfir fyrirhugað snjóflóðavarnarsvæði ofan byggðar á Bíldudal. Reistur verður 8- 14 m hár og 1.000 m langur þvergarður ofan byggðarinnar en neðan Stekkjar-, Klofa-, Merki- og Innstagils. Jafnframt verða reistar þrjár 4,5 m háar keilur neðan Stekkjargils. Erindinu fylgir samþykki landeigenda Litlu Eyrar fyrir deiliskipulaginu.

Skipulags- og framkvæmdaráðið telur þó að betur þurfi að gera grein fyrir mótvægisaðgerðum er snúa að endurheimt staðgróðurs, gera þurfi áætlun um heftun útbreiðslu lúpínu þar sem áætlað er að endurheimta starungsmýrarvist og aðrar náttúrulegar vistgerðir.

Krapaflóð, aurskriður og grjóthrun eru þekkt úr giljum sunnan Búðargils ofan Bíldudals en þar eru tvo stór gil; Búðargil og Stekkjargil en á milli þeirra eru Klofagil, Merkigil og Innsta gil. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar muni taka u.þ.b. 3 ár en upphaf og framvinda ræðst af fjárframlögum til verkefnisins.

Við nauðsynlegar skeringar við gerð varnargarða og keila falla til 230.000 rúmmetrar en þörf fyrir efni verður um 212.000 m3 . Umframefni nemi því um 20.000 m3 . Gert er ráð fyrir að umframefni verði nýtt í landmótun. Við frágang er stefnt að því að umbreyta svæðinu þannig að það nýtist til útivistar með stígum og áningastöðum. Aðkomuvegir verða lagðir um svæðið vegna framkvæmdanna en hluti þeirra mun nýtast við viðhald eftir að framkvæmdum lýkur.

Svæðið sem um ræðir liggur ofan við lóðir við Dalbraut, og nær allt upp í 200 m hæð yfir sjávarmáli. Ofan við byggðina í ca.40 m hæð er fjárgirðing sem liggur þvert á hlíðina og eru gróðurskil þar áberandi. Háspennulína liggur einnig í hlíðinni ofan við byggðina. Flytja þarf háspennustreng í jörð, samhliða uppbyggingu varnarmannvirkja.

DEILA