Ásthildur Lóa: andvíg laxeldi í sjó

Ásthildur Lóa Þórsdóttir er starfandi forseti Alþingis.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi á framboðsfundi á Suðurnesjum skömmu fyrir Alþingiskosningarnar að hún væri andvíg laxeldi í sjó og reyndar einnig andvíg hvalveiðum.

Fyrir viku var þetta borið undir hana og hún beðin um að svara því hver afstaðan væri til þessara mála. Enn hafa ekki borist svör.

Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi svaraði fyrir kosningar spurningunni um afstöðu sína til laxeldis þannig:

„Flokkur fólksins vill traustan lagaramma um sjókvíaeldi og aukið eftirlit. Sveitarfélög fái aðstöðugjöld af kvíum, og greitt verði fyrir afnot af fjörðum. Efla þarf þekkingu innan greinarinnar. Þetta kemur fram í kjördæmabæklingi flokksins um áherslumál fyrir Norðvesturkjördæmi. Það verður hlutverk næsta kjörtímabils að setja greininni trausta lagaramma sem felur í sér aukið eftirlit.“

Í svari frá flokksskrifstofu Flokks fólksins við sömu spurningu segir eftirfarandi:

„Í stuttu máli: Ef að það er hægt að haga starfseminni þannig að laxeldið hafi ekki slæm áhrif á lífrikið og villta laxstofninn þá erum við ekki á móti slíku laxeldi. Yfir höfuð reynum við að fara hægt og varlega í að banna ákveðna starfsemi vegna þess hversu íþyngjandi það er fyrir þá sem starfa við hana. Við höfum verið frekar hlutlaus hvað þetta varðar fram að þessu vegna þess að málið er ekki einfalt og þingmennirnir þurfa betri skilning á atvinnugreininni svo að við getum tekið vel ígrundaða ákvörðun.“

DEILA