Arnarlax hefur framleitt 100.000 tonn af laxi – sem samsvarar 500 milljón máltíðum

Höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arnarlax á Bíldudal náði þeim merka áfanga í síðustu viku að framleiða yfir 100,000 tonn af laxi frá stofnun fyrirtækisins árið 2010 en vert er að benda á að 100,000 tonn eru ígildi 500 milljón máltíða.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu fyrirtækisins.

Þar segir að fyrirtækið hafi vaxið hratt og aukið framleiðslugetu sína á sama tíma og það hefur viðhaldið gæðum og lágmarkað umhverfisáhrif framleiðslunnar. Aukin framleiðslugeta fyrirtæksins hefur verið studd á markvissan hátt með fjárfestingum í innviðum, tækni og nýsköpun til að tryggja ábyrgar og sjálfbærar framleiðsluaðferðir.  Framleiðslan hefur aukist ár frá ári eða frá 6.100 tonnum árið 2016 og fór hæst í 17.800 tonn árið 2023, sem jafngildir að meðaltali um 11.100 tonn á hverju ári. Framleiðslumöguleikar fyrirtækisins eru allt að 26.000 tonn á ári en fyrirtækið stefnir að áframhaldandi stækkun sem byggir á sjálfbærum framleiðsluaðferðum.

“Þetta er mikilvægur og ánægjulegur áfangi í 15 ára vegferð fyrirtæksins. Þessi árangur er afrakstur mikillar vinnu starfsfólks okkar í öllum deildum fyrirtækisins. Hvert einasta tonn staðfestir framtíðarsýn og skuldbindingu okkar við samfélagið og umhverfið. Við erum ekki aðeins að horfa á magn framleiðslunnar, heldur einnig hvernig — þannig að aðferðir okkar stuðli að lágmarksáhrifum á umhverfið.“ segir Björn Hembre, forstjóri Arnarlax.

Atvinnuuppbygging á sunnanverðum Vestfjörðum

Markmið fyrirtækisins hefur ávallt verið að stuðla að atvinnuuppbyggingu á sunnan verðum Vestfjörðum. Samhliða aukinni stækkun fyrirtækisins hefur starfsfólki, verktökum, þjónustuaðilum og afleiddum störfum fjölgað á svæðinu. Starfsemin hefur haft jákvæð efnahagsáhrif á svæðinu en meðalfjöldi  starfsfólks hjá Arnarlaxi eru 184 og um 70% þeirra búa í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

Mikil þekkingaruppbygging hefur einnig átt sér stað á svæðinu og segir í fréttinni að það hefur verið rík áhersla á að ráða sérfræðinga til starfa á öllum sviðum fyrirtækisins. Sérfræðiþekking starfsmanna vegur þungt í að viðhalda stöðugri framleiðslu og vexti sem felst í því að innleiða og fylgja eftir mótvægisaðgerðum til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og vistkerfi sjávar. Til að tryggja gæði og framleiðni þá hefur fyrirtækið fjárfest í rannsóknum og þróun, innleitt nýstárlegar lausnir eins og Hybrid vinnubáta og fóðurpramma, landtenginu við fóðurpramma til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif.

“Laxeldi er mikilvæg atvinnugrein á Vestfjörðum og jafnframt ein af mikilvægustu atvinnugreinum Íslands og nam útflutningsverðmæti greinarinnar um 40 milljörðum króna árið 2023 eða 4,3% af vöruútflutningi þjóðarinnar og stefnir í um 5% árið 2024. Enn er rúm til vaxtar í greininni en til þess að hámarka möguleika laxeldis fyrir Ísland þarf að vera skýr laga rammi, samkeppnishæfir skattar og vilji stjórnvalda til að nýta þessa auðlind á sjálfbæran hátt. Óvissan sem greinin býr við er ekki góð fyrir neinn. Möguleikarnir eru miklir á Íslandi og útflutningstekjur af laxi geta orðið meiri en af þorskinum þegar fram líða stundir.“ segir Björn ennfremur.

DEILA