Afhendingartími eggja rýmkaður

Egg skal nú afhenda neytendum í síðasta lagi innan 28 daga frá varpi.

Nýlega var gerð breyting á reglugerð sem eykur leyfilegan frest til að afhenda neytendum egg, úr 21 degi frá varpi í 28 daga.

Er breytingin gerð til að samræma reglur hér á landi við gildandi reglur í Evrópusambandinu.

Egg sem seld eru neytendum skulu vera með heila og ósprungna skurn. Þau eiga að vera hrein. Eggjum skal pakkað í hreinar umbúðir.

Sá sem þvær egg fyrir dreifingu skal hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun til þvotta og pökkunar á eggjum. Þvottur getur eyðilagt náttúrlega vörn eggjanna gegn sýklum og eykur hættu á að smit komist inn í eggin og því er mikilvægt að rétt sé staðið að þvotti þeirra.

Geymsla fyrir egg skal vera hrein, þurr og laus við framandi lykt. Egg skulu varin gegn höggum og sólarljósi. Hitastig við geymslu eggja hjá framleiðanda skal vera að hámarki 12°C. Egg skal geyma og flytja við það hitastig (sem helst skal haldast jafnt) sem hentar best til að tryggja heilnæmi eggja.   Kjörhitastig eggja er  því sem næst 12 °C í flutningi og við geymslu í verslun og æskilegt er að egg séu ekki geymd sem kælivara (0-4 °C)  fyrr en þau eru komin í ísskáp neytandans. Ástæða þessa er að raki getur myndast á yfirborði eggja við hitasveiflur og aukið hættu á örverumengun eggja.

DEILA