Jólamót Héraðssambandsins Hrafna Flóka, HHF, í frjálsum var haldið í gær í íþróttamiðstöðinni Bröttuhlíð á Patreksfirði og mættu 28 þátttakendur til þess að spreyta sig í keppni.
Þátttakendur 9 ára og yngri fóru í þrautabraut þar sem þau prófuðu grindahlaup, langstökk og þrístökk án atrenu, kúluvarp og skutlukast.
Bina F. S. Hannesdóttir.
„Frábær tilþrif sáust á vellinum hjá unga fólkinu okkar“ sagði Bina F. S. Hannesdóttir formaður HHF og „framtíðin er sannarlega björt hjá næstu kynslóð frjálsíþróttafólks HHF.“
Eldri hópurinn, 10 ára og eldri, þreyttu keppni í 6 greinum; langhlaupi, hástökki, langstökki og þrístökki án atrenu, kúluvarpi og skutlukasti. Góður árangur náðist á mótinu, margir persónulegir sigrar en auk þess voru 11 héraðsmet HHF innanhúss bætt.
„Sannarlega frábær árangur hjá frjálsíþróttahóp HHF sem eru dugleg að æfa sig og mæta á mót. Miklar bætingar hafa náðst á árinu hjá öllum í hópnum og gott að enda árið á góðu lokamóti heima í héraði.“
Yngri keppendurnir á jólamóti HHF.
Myndir: HHF