Einn frambjóðenda á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi gerir athugasemdir við frétt Bæjarins besta á mánudaginn um kosningaáherslur flokksins sem kynntar voru á sunnudaginn. Athugasemdin er birt hér í dag og er farið fram á leiðréttingu á fréttinni. Fréttin fjallar einkum um tvennt, um stefnu VG í sjókvíaeldi annars vegar og hins vegar um virkjanir á Vestfjörðum.
Friða hálendi Vestfjarða
Um virkjanir á Vestfjörðum segir Guðmundur I. Guðbrandsson, varaformaður flokksins í kynningunni, sem hver sem er getur kynnt sér, að stefnan sé að halda áfram friðlýsingum og því vilji flokkurinn friða hálendi Vestfjarða og segir með því sé verið að taka frá svæði sem „við viljum að ekki verði ráðist inn á.“
Þetta er alveg skýrt. VG vill ekki að virkjað verði á hálendi Vestfjarða. Formaður Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, talar enga tæpitungu í viðtali við Morgunblaðið sem sagt er frá 4. nóvember sl. Þar segir: Hún „er lítt hrifin af þeim virkjanakostum sem nú eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Hún er ósátt við að Hvammsvirkjun sé að verða að veruleika. Hún er heldur ekki fylgjandi því að Hvalárvirkjun á Vestfjörðum verði að veruleika.“
Bæði formaður og varaformaður Vinstri grænna hafa því lýst yfir opinberlega andstöðu við Hvalárvirkjun og það er til viðbótar stefnu flokksins um að friða hálendi Vestfjarða.
Það er ekki nóg að virkjunarkostur hafi verið samþykktur í rammaáætlun, VG er samt á móti. Og það er ekki heldur nóg að þingmenn VG hafi stutt virkjunarkostinn í nýtingarflokk rammaáætlunar í atkvæðagreiðslu á Alþingi, flokkurinn er samt á móti og lýsir því yfir núna fyrir Alþingiskosningarnar.
Annar kostur á hálendi Vestfjarða, Austurgilsvirkjun, hefur verið samþykkt í nýtingarflokk rammaáætlunar, rétt eins og Hvalárvirkjun. Austurgilsvirkjun er þar að auki á sama hálendi og Hvalárvirkjun. Það segir sig því sjálft að VG með stefnunni að friða hálendi Vestfjarða leggst líka gegn Austurgilsvirkjun – þrátt fyrir að hafa stutt hana í atkvæðagreiðslu um rammaáætlun á Alþingi.
Í sumar greindi Bæjarins besta frá því að verkefnisstjórn um rammaáætlun hafi kynnt tillögu sína um flokkun á fimm virkjunarkostum. Þrír af þeim eru á Vestfjörðum. Það eru Skúfnavatnavirkjun á Langadalsströnd, Hvanneyrardalsvirkjun í Ísafirði og Tröllárvirkjun í Vattarfirði. Lagt til að allir þessir kostir fari í nýtingarflokk. Þá er það spurningin eru þessir þrír kostir á hálendi Vestfjarða að mati VG. Það er ekki skýrt í stefnukynningunni og svör hafa ekki borist frá flokksskrifstofunni um það. En allir eiga þeir sammerkt að vera á hálendi Vestfjarða að einhverju leyti eða jafnvel að öllu leyti.
Frétt Bæjarins besta er rétt lýsing á stefnuáherslum varðandi virkjanir miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og ekkert að leiðrétta í henni. Beðið er svara frá flokksskrifstofunni um nánari skýringar á því landssvæði sem flokkurinn vill friða og kallar hálendi Vestfjarða. Hvert sem svarið verður þá liggur það fyrir að VG er á móti virkjunarkostum í nýtingarflokki rammaáætlunar sem þingmenn þess hafa stutt á Alþingi. Sá stuðningur var sem sé marklaus og til þess að blekkja kjósendur.
Fasa út laxeldið
Varðandi hitt atritið sem fjallað var um í fréttinni, sjókvíaeldið á Vestfjörðum, er það alveg skýrt að flokkurinn leggst gegn sjókvíaeldinu og segir berum orðum að fasa eigi það út. Aðeins eldi á landi og í lokuðum kvíum getur flokkurinn samþykkt. Þetta er vandlega áréttað í fréttinni og er í fullu samræmi við það sem fram kom hjá varaformanni flokksins í umræddri kynningu á sunnudaginn. VG er á móti laxeldinu sem er á Vestfjörðum af því það er sjókvíaeldi í opnum pokum eins og varaformaðurinn orðaði það.
Það var hins vegar ekki skýrt hvernig ætti að fasa út eldið. Hvað þýðir það? Búið er að gefa út leyfi fyrir liðlega 70 þúsund tonna lífmassa á Vestfjörðum og framleiðslan er um það bil helmingur þess. Á að stöðva aukningu eldisins á næstu árum upp í útgefin leyfi? Á að stytta leyfistíma gildandi leyfa eða á að skerða leyfin jafnt og þétt á næstu árum? Á að bíða þess að lokaðar kvíar verða raunhæfur kostur og þá fyrst að byrja að fasa út leyfin eða hvað er forysta VG að meina?
Um þetta hefur Bæjarins besta spurt og beðið er svara frá Vinstri grænum.
Því er ekki að neita að rökstuðningurinn fyrir þessari bannstefnu við sjókvíaeldinu stakk í augu. Því er haldið fram að eldið skaði tekjur þeirra sem fá tekjur af stangveiði, m.a. í formi leigu veiðiréttinda og það sé byggðamál. Ekkert hefur verið staðfest um að laxeldið á Vestfjörðum hafi valdið skaða að þessu leyti. Þvert á móti hefur stangveiðin gengið vel á árinu. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um umfangið af stangveiðinni og meintar tapaðar tekjur landeigenda og bera það svo saman við fiskeldið.
Ekkert var hins vegar minnst á hagsmuni Vestfirðinga af laxeldinu. Það eru líka byggðaáhrif þar. Og skipta þau ekki máli? Atvinnugrein sem skapar um 300 bein störf, greiðir um 1 m.kr. í laun á mánuði og hefur snúið við áratuga öfugþróun á Vestfjörðum og breytt afturför í framsókn og er svo stór efnahagslega að um hana munar á landsvísu. Einhvern tíma hefði verið minnst á þetta í kosningabaráttu þegar talað er til kjósenda, en það gerði ekki varaformaður Vinstri grænna að þessu sinni. Bann við laxeldi mun skaða Vestfirði og það mikið. Það mun einnig skaða hagsmuni þjóðarinnar. En fyrir VG eru það ekki hagsmunir sem tekur því að nefna.
Í frétt Bæjarins besta er heldur ekkert sem þarfnast leiðréttingar varðandi frásögn af stefnu VG í laxeldinu.
En það er skiljanlegt að frambjóðanda VG á Vestfjörðum svíði undan framgöngu forystu flokksins í mikilsverðum málum fyrir Vestfirði.
-k