Vinnumálastofnun vinni fyrir fólkið í landinu

Í tvígang hef ég farið um Norð Vestur kjördæmið í nafni Samfylkingar en hikaði ekki þegar að Guðmundur Hrafn Arngrímsson, oddviti sósíalista í kjördæminu, hringdi og bauð mér 2.sætið. Er ég þá orðin flokkahóra eða hvað? Ef að lesandanum finnst það þá langar mig að minna á að allir hafa rétt á að skipta um skoðun og öðruvísi getum við ekki búist við breytingum ef að við leyfum fólki ekki að skipta um skoðun og skiptum ekki um skoðun sjálf. Þjóðfélagið tekur sífellt breytingum og líf okkar allra tekur breytingum og þarfir okkar breytast og að sjálfsögðu höfum við rétt á að kjósa þann flokk sem að við trúum best fyrir okkar þörfum hverju sinni.

Í framboðinu er ég titluð fiskverkakona og vildi óska að ég gæti áfram unnið við handflökun en aðstæður eru breyttar og ég er á hraðleið í endurhæfingu. Síðan í lok júlí  2023 hef ég verið í þeim störfum sem að ég hef getað innt af hendi og er það aukaleikur í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eins og Ljósvíkingar og Ráðherran 2 en kristalla flakk og stöðusvimi vegna vöðvabólgu hefur herjað á mig síðasta árið og gert mér lífið leitt. Þessi staða þýðir að ég hef þurft að treysta á Vinnumálastofnun og þráast við að fara til VIRK í þeirri von að hlutirnir lagist.

Það eru heilar 198þ. Krónur sem að ég hef fengið á mánuði frá VMST og núna falla niður 2 mánuðir vegna þess að ég missti af upplýsingafundi sem boðaður var með sólarhrings fyrirvara en ég hafði ekki séð boðunina af því að ég var svo slæm af svimanum að ég hafði ekki heilsu til að líta í tölvu eða síma og sá hana ekki fyrr en að fundi liðnum. Ég hafði strax samband við Vinnumálstofnun og útskýrði mál mitt en ekkert dugði, ekki heldur læknisvottorð. Málið er nú í höndum lögfræðinga á vegum Verkalýðsfélags Akraness og er ég ekkert vongóð um að ég fái bæturnar sem að ég tel að mér beri en mér dettur ekki í hug að gefast upp og leyfa þeim þetta harðræði. Ég þakka bara fyrir að vera ekki einstæðingur og að ég á mann sem að enn getur unnið.

Af hverju í ósköpunum er ég að telja þetta upp hér og væla yfir minni stöðu? Jú ég vil að stofnanir eins og Vinnumálastofnun og Tryggingarstofnun séu að vinna fyrir fólkið í landinu, fólkið sem að borgar launin þeirra. Ég vil að þeir temji sér mannsæmandi vihorf og framkomu við fólk en komi ekki fram við alla eins og þeir séu að reyna að svindla og hafa pening af samfélaginu og vilji bara lifa af bótum. Til dæmis væri hægt að breyta orðalagi í bréfum stofnananna. Ég er að tala um kerfið sem að á að grípa okkur þegar útaf ber en lætur okkur oft líða eins og rænginjum og ölmusuþegum. Kannski segja einhverjir „En þetta er kerfið“ og þá svara ég „Kerfið er búið til af okkur og við getum breytt því“.

Jónína Björg Magnúsdóttir

Greinarhöfundur er í 2.sæti Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

DEILA