Ég heiti Sif Huld Albertsdóttir, er uppalin í Hnífsdal en búsett á Ísafirði. Ég er menntaður þroskaþjálfi með meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst, þar sem ég sérhæfði mig í verkefnastjórn. Næsta vor mun ég ljúka annarri meistaragráðu frá sama skóla, að þessu sinni í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun.
Ég hef óbilandi áhuga á nýjum verkefnum og líður best þegar ég hef nóg fyrir stafni. Dauðar stundir eru sjaldgæfar hjá mér, og ef þær koma fyrir, finn ég ný verkefni til að taka mér fyrir hendur – jafnvel þó það sé ekki alltaf besta hugmyndin! Hins vegar er ég þekkt fyrir að klára það sem ég byrja á.
Ég er gift Hákoni Hermannssyni, sem fæddur og uppalinn á Ísafirði, og saman eigum við fjóra syni: Albert Marzelíus, Hermann Alexander, Friðrik Unnar og Hákon Huldar. Við eigum einnig hundinn okkar hann Ask, en fjölskyldan er mikilvægur hluti af lífi mínu.
Árið 2018 stofnuðum við fjölskyldufyrirtækið Dokkan Brugghús ásamt foreldrum mínum, Alberti Marzelíusi Högnasyni og Gunnhildi Gestsdóttur, og bróður mínum Arnari Friðriki og Thelmu, konu hans. Hugmyndin að Dokkunni kviknaði í umræðum um hvernig mætti auka við afþreyingu fyrir ferðamenn í bænum, sérstaklega þegar skemmtiferðaskip kæmu til hafnar. Verkefnið hefur síðan þá vaxið og dafnað.
Í dag starfa ég sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Sjótækni ehf., hafsæknu og metnaðarfullu þjónustufyrirtæki með höfuðstöðvar á Tálknafirði og starfsstöðvar á Ísafirði og í Reykjavík. Starfið mitt er fjölbreytt og krefjandi, ég er stöðugt að læra eitthvað nýtt. Ég ber ábyrgð á vottunum fyrirtækisins og er sérstaklega stolt af því að vera búin að uppfylla þrjár ISO-vottanir, gæða-, öryggis- og umhverfisvottanir. Þessar vottanir hafa styrkt okkur mikið í starfi við að þjónusta viðskiptavini á sviði fiskeldis, sveitarfélaga, virkjana, vegagerðar og fleira.
Ég er mjög virk í félagsstörfum og gegni stöðu formanns í félaginu Breið Bros, en það eru hagsmunasamtök fyrir foreldra barna, börn og ungmenni sem fæðast með skarð í vör og/eða tanngarði. Þar berst ég fyrir aukinni þjónustu og réttindum barna í félaginu. Ég hef einnig lagt mig fram um að bæta þjónustu- og kostnaðarskipulag innanlandsferða fyrir fjölskyldur hjá Sjúkratryggingum Íslands.
Áhugamálin mín snúast að miklu leyti um hreyfingu og íþróttir, bæði mína eigin og barna minna. Eldri börnin mín æfa handbolta hjá Herði sem markmenn og hafa tekið þátt í landsliðsæfingum ungmenna. Það er mér sönn ánægja að fylgja þeim í þeirra áhugamálum. Sjálf nýt ég þess að hreyfa mig á margan hátt – hvort sem það er útihlaup í góðu veðri með hundinum mínum, gönguferðir eða reglulegar æfingar í Stöðinni heilsurækt. Ég elska að þræða landið okkar og finna allar þær geggjuðu náttúrulaugar sem þar eru. Hreyfing gefur mér bæði orku og gleði, og ég legg mig fram við að nýta hvern dag til hins ýtrasta!