Ég heiti Hilmar Kristjánsson Lyngmo, er fæddur og uppalinn í Brunngötu 20 Ísafirði, ólst þar upp með sjö systkinum ásamt foreldrum og á tímabili einnig báðum ömmum og öðrum afa mínum.
Foreldrar mínir heita Kristján H. Lyngmo og Ólína K. Jónasdóttir sem er látin.
Giftist 17.maí 1997 Sigríði Sigþórsdóttur og eigum við tvö uppkomin börn Sigþór og Evu Björg.
Starfaði í björgunarsveit frá unglingsaldri, það var lærdómsríkt, góður félagsskapur við leik og störf en þegar fjölskyldan stækkaði breyttust aðstæður.
Eftir grunnskóla lærði ég vélstjórn, starfaði í Áhaldahúsi Ísafjarðar sem tækjamaður með námi, byrjaði 1985 sem vélstjóri og síðar yfirvélstjóri á Guðbjarti ÍS 16, 1995 fór ég á Orra ÍS 20, báðir gerðir út af Hraðfrystihúsinu Norðurtanga, hjá þeirri útgerð var gott að vera.
Árið 1997 fór ég sem vélstjóri og síðar yfirvélstjóri á Pál Pálsson ÍS 102, sem var gerður út af Hraðfrystihúsinu-Gunnvör. Þegar hann var seldur sumarið 2017 til Vestmannaeyja, fylgdi ég honum til eyja og var þar á „Sindra VE 60“ hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja út maí 2018.
Tók rafvirkjanám með vinnu 2017 til 2019, bætti svo við mig skipstjórnarmenntun B-stig, en ég var með 30 tonna réttindi áður, klára það nám vorið 2022.
Hef störf sem vélstjóri/hafnarstarfsmaður hjá Höfnum Ísafjarðarbæjar 1. Júní 2018, var vélstjóri á lóðsbátnum og vann hin ýmsu störf sem tilheyra hafnarstarfseminni.
Þegar starf hafnarstjóra var auglýst ákvað ég að slá til og sækja um starfið sem mér fannst áhugavert, fjölbreitt og felur í sér margar áskoranir. Hef ég starfað sem hafnarstjóri frá 1. Janúar 2023 og sé ég ekki eftir því, þar sem starfið er gefandi og hef ég kynnst mörgu innlendu og erlendu fólki í gegnum það.
Áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldu og vinum. Áður en ég fór að vinna á höfninni var mikið ferðast um landið með tjaldvagn og fellihýsi en eftir það hafa sumarfríin verið tekin á veturna og þá frekar farið til heitari landa.